50 milljónir heimsækja Myspace í hverjum mánuði og vefurinn er á meðal þeirra tuttugu vinsælustu í Bandaríkjunum þegar kemur að fjölda áhorfa á myndbönd á vefsíðunni.
Í umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að talið sé að stór hluti af umferðinni um vefinn sé til kominn vegna samfélagsleikja á borð við #ThrowbackThursday sem eru vinsælir á Facebook og Instagram. Þá birta notendur gamlar myndir af sér. Margir eiga gamlar myndir af sér vistaðar á Myspace síðum sínum og fara þangað í leit að þeim.
Myspace naut gríðarlegra vinsælda rétt eftir aldamótin síðustu. Fyrirtækið News Corp, sem var stofnað af Robert Murdoch, keypti fyrirtækið á 580 milljónir Bandaríkjadala fyrir rétt um áratug. Vefurinn missti þá flugið og seldi fyrirtækið vefinn til Specific Media. Það fyrirtæki hefur blásið lífi í vefinn og er hann nú nokkuð vinsæll hjá ungu fólki í Bandaríkjunum.
Myspace var framarlega í þróun á myndakerfum á netinu og stendur fyrirtækið því vel hvað það varðar. Margir sækja í gamlar myndir í gegnum forritið.
Leikir á Facebook og Instagram halda Myspace á lífi
