Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri segir vexti í nágrannalöndum of lága

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að vextir á Íslandi séu ekki endilega of háir. Vextir í nágrannalöndunum séu of lágir og það skapi vandamál fyrir peningastefnuna þar. Það auki hættuna á bólumyndun í hagkerfinu, ýti undir áhættuhegðun og sé almennt hættulegt fyrir fjármálastöðugleika.

Menn hafa gagnrýnt vaxtaokur á Íslandi, meðal annars forsætisráðherra landsins. Bent er á að lagðir séu háir vextir á verðtryggingu og slíkt sé ekki eðlilegt. Algengt er að bera vaxtastigið hér saman við Norðurlönd, þar sem vextir séu almennt mjög lágir.  

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sem var gestur í þættinum Sprengisandi í morgun er á annarri skoðun.

„Ég held kannski sérstaklega í Danmörku og Svíþjóð að þá er það bara þannig að þeir hafa mjög miklar áhyggjur af þessari stöðu mjög eðlilega. Vegna hvers? Því hvað eru vextir? Jú, vextir eru afgjald fyrir að nota lánsfjármagn. Við þekkjum það bara á sögunni að lánsfjármagn getur verið hættulegt og getur verið hættulegt í of miklu magni. Ef að vextirnir eru of lágir þá er sú freistni og tilhneiging að skuldsetja sig of mikið og þú ræður kannski við það á meðan vextirnir eru á þessu lága stigi en svo kemur að því að þeir hækka og þá ertu kominn í vandræði,“ sagði Már.

Hann sagði Svía til að mynda neyðast til að hafa svo lága vexti vegna þrýstings frá peningastefnu Evrópska seðlabankans.

„Það eru lægri vextir en myndu henta sænska þjóðarbúinu og sama á við um Danmörku en þó aðeins í minna mæli. Á sama tíma er fasteignamarkaðurinn í Svíþjóð yfirspenntur og skuldir heimila vaxa á ógnarhraða og af þessu hafa menn bara miklar áhyggjur.“


Tengdar fréttir

Miklu betri vaxtakjör með öðrum gjaldmiðli en krónu

Aðalhagfræðingur Landsbankans segir að Íslendingar fengju miklu betri kjör á íbúðalánum ef hér væri notaður annar gjaldmiðill, til dæmis evra. Vaxtakjör á hinum Norðurlöndunum eru mun betri, en víða bjóðast þar 1,3 til 1,5 prósent nafnvextir á húsnæðislánum.

Seðlabankinn óttast að vaxtahækkanir bíti síður

Seðlabankinn óttast að stýrivaxtahækkanir muni hafa minni áhrif á útlánavexti og þar með möguleika bankans til að slá á þenslu í hagkerfinu í kjölfar aukinna fjárfestinga erlendra aðila á skuldabréfamarkaði. Peningastefnunefnd tilkynnti í gær að stýrivextir hefðu verið hækkaðir um 0,25 prósentustig og eru þeir nú 5,75 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×