Innlent

Saman dregur í lestri þegar börnin eldast

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Stærðfræðikennsla í Finnlandi. Í nýrri skýrslu er vísað til PISA-kannana sem sýni að foreldrar í öllum löndum OECD búist frekar við því að synir þeirra, fremur en dætur, starfi við raungreinar, tækni eða verkfræði- eða stærðfræðitengd störf á fullorðinsárum.
Stærðfræðikennsla í Finnlandi. Í nýrri skýrslu er vísað til PISA-kannana sem sýni að foreldrar í öllum löndum OECD búist frekar við því að synir þeirra, fremur en dætur, starfi við raungreinar, tækni eða verkfræði- eða stærðfræðitengd störf á fullorðinsárum. Fréttablaðið/AFP
Niðurstöður rannsóknar á jafnrétti kynjanna í námi benda til þess að mismunandi gengi kynjanna í skóla ráðist ekki af ásköpuðum getumun kynjanna. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birti í lok vikunnar skýrsluna „Grunnur kynjajafnréttis í námi“ (e. The ABC of Gender

Equality in Education).

Um leið kemur fram í skýrslunni að í öllum löndum OECD hafi stúlkur minni trú á getu sinni til að leysa þrautir í stærðfræði og raunvísindum. „Stúlkur, jafnvel þær sem standa vel að vígi í námi, eru líklegri til að lýsa sterkum kvíðatilfinningum í garð stærðfræði,“ segir í skýrslunni.

Að jafnaði gengur strákum heldur betur en stúlkum í stærðfræði í löndum OECD, þegar bornar eru saman einkunnir nemenda sem standa vel í náminu. „Þegar hins vegar eru bornar saman einkunnir drengja og stúlkna sem lýsa svipuðum viðhorfum og mati á eigin getu í stærðfræði þá hverfur bilið á milli kynjanna.“

Skýrslan byggir að hluta á PISA-rannsóknum og greiningum á niðurstöðum þeirra, sér í lagi hjá 15 ára nemendum. Farið er yfir hvernig strákar séu almennt eftirbátar stúlkna í lestri og verji raunar að jafnaði klukkustund skemur á viku í heimanám.

„Klukkustund varið í heimanám á viku leiðir hins vegar af sér fjögurra stiga hærri einkunn í PISA-prófum á lestri, stærðfræði og raungreinum,“ segir í skýrslu OECD. Beint samhengi virðist hins vegar milli lestrargetu og getu í stærðfræði og á það jafnt við um drengi og stúlkur.

Þá kemur líka fram að drengir nái stúlkum í lestri þegar fram í sækir og þeir eldast og þroskast. Lestrarskimanir OECD meðal fullorðinna greini til dæmis engan mun á kynjunum hjá 16 til 29 ára fólki.

Angel Gurría
Í inngangsorðum Angels Gurría, framkvæmdastjóra OECD, að skýrslunni bendir hann á þá niðurstöðu að kynbundinn getumunur eigi rót sína fremur í viðhorfi nemendanna til námsins og framgöngu í skólunum. Félagslegir þættir ráði för.

„Til þess að drengir og stúlkur fái jöfn tækifæri til að nýta hæfileika sína til fulls verður að koma til kasta foreldranna, sem hvatt geta börn sín til að lesa; kennara sem ýtt geta undir sjálfstæðari nálgun við lausn verkefna hjá nemendum; og nemendanna sjálfra, sem gætu varið tíma sínum utan skóla í meira mæli „ótengd“ en nú er,“ segir hann.

Stúlkurnar standa sig betur á Íslandi

Skýrsla OECD vísar til PISA-niðurstaðna frá 2012 um að í löndum þar sem stúlkum gengur vel í lestri standi þær sig álíka vel og drengir í stærðfræði. Vísað er til Finnlands þar sem stúlkur séu 62 stigum yfir piltum í lestri og standi þeim jafnfætis í stærðfræði. Á Íslandi séu stúlkur 51 stigi yfir drengjum í lestri og standi þeim framar um 6 stig í stærðfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×