Innlent

Ráðist á þrjár konur í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Tveir mannanna voru handteknir í heimahúsum í austurborginni og í Garðabæ, en sá þriðji var handtekinn í miðborginni.
Tveir mannanna voru handteknir í heimahúsum í austurborginni og í Garðabæ, en sá þriðji var handtekinn í miðborginni. Vísir/Getty
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá karlmenn í nótt, sem ráðist höfðu á sambýliskonur sínar. Tveir þeirra voru handteknir í heimahúsum í austurborginni og í Garðabæ, en sá þriðji var handtekinn í miðborginni.

Skömmu fyrir miðnætti var maður á sextugsaldri handtekinn í heimahúsi í Garðabæ. Hann gisti fangageymslur í nótt og í dagbók lögreglunnar segir að hann verði yfirheyrður þegar hann verði í ástandi til þess.

Þá var maður á sjötugsaldri handtekinn í austurborginni fyrir að ráðast á sambýliskonu sína. Hann gisti einnig fangageymslur og verður yfirheyrður þegar hann verður í ástandi til þess. Þriðji maðurinn er á fertugsaldri og var handtekinn í miðborginni eftir að hafa slegið sambýliskonu sína. Vegfarendur gáfu lögregluþjónum lýsingu á því sem gerst hafði.

Upplýsingar um líðan kvennanna liggja ekki fyrir.

Áberandi ölvaður sextugur karlmaður var handtekinn á veitingahúsi í austurborginni, þar sem hann hafði látið ófriðlega á veitingastað í gærkvöldi. Maðurinn neitaði að greiða reikning sinn og hafði í hótunum við lögregluþjóna.

Sjö umferðaróhöpp eru bókuð í dagbók lögreglunnar. Þar á meðal umferðarslys á Bústaðavegi þar sem tveir fólksbílar skullu saman. Farþegi í öðrum bílum handleggsbrotnaði í árekstrinum.

Tveir ökumenn voru teknir úr umferð í nótt fyrir ölvunarakstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×