Ríkjandi Evrópumeistarar Frakka unnu Serbíu, 81-68, í leiknum um bronsverðlaunin á Evrópumótinu í körfubolta í dag.
Frakkar voru fimm stigum yfir í hálfleik, 37-32, og gengu frá leiknum í þriðja leikhluta sem þeir unnu með níu stiga mun, 21-12.
Nando De Colo, fyrrverandi leikmaður San Antonio Spurs, var stigahæstur á vellinum, en hann skoraði 20 stig fyrir Frakka. Tony Parker skoraði þrettán stig. Hjá Serbíu var Bogdan Bogdanovic stigahæstur með 14 stig.
Úrslitaleikurinn hefst klukkan 17.00 en þar mætast Spánn og Litháen.
