Vélaframleiðandinn Renault er sannfærður um að hann geti náð Mercedes án einhverskonar jafnræðisreglu.
Franski vélaframleiðandinn skaffar Red Bull og Toro Rosso vélar og hefur átt erfitt uppdráttar. Renault hefur ekki tekist að ná sama afli og ökufærni út úr sinni vél og Mercedes vélin virðist skila. Talið er að aflmunurinn sé í kringum 50 hestöfl.
Christian Horner, keppnisstjóri Red Bull kallaði eftir því að einhverskonar jafnræðisregla yrði sett til að minnka aflmuninn. Hann lagði líka til að slakað yrði á reglum um þróun yfir tímabilið.
Cyril Abiteboul, yfirmaður Formúlu 1 deildar Renault segir slíkar reglubreytingar óþarfar. Hann segir það einungis vera tímaspursmál hvenær Renault vélin verður jafnoki Mercedes vélarinnar.
„Ég myndi aldrei segja að við þyrftum reglubreytingar til að ná þeim,“ sagði Abiteboul.
„Ég held að það sé engin ástæða til að halda annað en að við munum ná þeim. Þetta er bara spurning um hvenær við náum þeim,“ bætti hann við.
„Við erum augljóslega á eftir og þurfum að þróa okkar vél hraðar. Við viljum lágmarka skaðan sem Red Bull-Renault samstarfið verður fyrir,“ sagði Abiteboul að lokum.
