Innlent

Lagði hald á tæpt kíló af sterkum fíkniefnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á tæpt kíló af sterkum fíkniefnum í umfangsmiklum aðgerðum á dögunum. Lögreglan greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni en um var að ræða um 650 grömm af amfetamíni og 250 grömm af ecstasy (MDMA).

Lögreglan framkvæmdi fimm húsleitir á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins, en auk fíkniefna var lagt hald á fjármuni sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Þá segist lögreglan einnig hafa tekið í sína vörslu riffil með sem fannst í fyrrnefndum aðgerðum.

Voru tveir karlar, annar á fertugsaldri og hinn á fimmtugsaldri, handteknir í þágu rannsóknarinnar, en þeir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu. Við aðgerðirnar naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og fíkniefnaleitarhunds frá tollinum. Lögreglan segir rannsókn málsins hafa staðið yfir í nokkurn tíma og að henni sé ekki lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×