Innlent

Nær fjórða hvert barn þarf sérfræðiaðstoð

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Árangur af námskeiðum fyrir börn sem þjást af kvíða og depurð hefur verið góður.
Árangur af námskeiðum fyrir börn sem þjást af kvíða og depurð hefur verið góður. vísir/getty
Um 250 níundubekkingum í grunnskólunum í Breiðholti hefur verið boðið að koma á námskeið vegna depurðar eða kvíða frá árinu 2008. Foreldrum barnanna hefur einnig verið boðin ráðgjöf. Hákon Sigursteinsson, deildarstjóri skólaþjónustu leik- og grunnskóla í Breiðholti, segir skimanir sýna að mörgum börnum líði illa.

„Við höfum skimað eftir kvíða og depurð hjá yfir 1.200 krökkum í níunda bekk. Skimist þeir yfir ákveðnum mörkum hringjum við í foreldra þeirra og bjóðum upp á viðtal, námskeið og önnur úrræði þjónustumiðstöðvarinnar.“

Að sögn Hákonar sýndu tölur frá því í júní í fyrra að 23 prósent barna í grunnskólunum fimm í Breiðholti þyrftu á einhvers konar sérfræðiaðstoð að halda og 17 prósent leikskólabarna. Hann kveðst ekki vita hvernig staðan sé í öðrum hverfum en viðmiðið sé að venjulega þurfi tíu til þrettán prósent grunnskólabarna sérfræðiaðstoð.

Hákon Sigursteinsson
Ástæðurnar fyrir þessari miklu þörf geta verið margar, bæði félagslegar og menningarlegar. „Þegar erindi berst til okkar frá skólunum setjum við málið í ákveðinn farveg. Við byrjum á því að vinna úr gögnum sem fylgja tilvísun frá skólanum og skoðum hvað þar hafi þegar verið gert. Síðan er tekin sameiginleg ákvörðun með skóla og foreldrum um hver næstu skref verði út frá því sem fyrir liggur. Hér starfa kennsluráðgjafar, talmeinafræðingur og hegðunarráðgjafi. Stundum er niðurstaðan sú að barn þurfi á svokallaðri frumgreiningu að halda hjá sálfræðingi en hún er nauðsynleg áður en vísað er á aðrar stofnanir,“ segir Hákon.

Bið eftir slíkri greiningu hjá skólaþjónustunni í Breiðholti er nú talsvert á þriðja ár en reynt er að forgangsraða þegar grunur vaknar um alvarlega röskun eða fötlun, að því er Hákon greinir frá.

Sveitarfélög hafa borið ábyrgð á skólaþjónustu frá 1996. Reglugerðin var endurskoðuð 2010. „Hún gerði þá miklu meiri kröfur til þjónustunnar sem ekki var fylgt eftir með fjármagni. Við óskuðum eftir viðbótarfjármagni í fyrra til að grynnka á biðlistanum en fengum ekki. Borgin þarf að koma með peninga eða við hér innanhúss sem við höfum reyndar gert. Ástandið er ekki gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×