Innlent

Vinna að því að draga úr fordómum í garð innflytjenda

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þórunn Lárusdóttir, verkefnisstjóri Vertu næs, við kynninguna í dag.
Þórunn Lárusdóttir, verkefnisstjóri Vertu næs, við kynninguna í dag. vísir/vilhelm
Nokkuð hefur borið á því undanfarin ár að fólki hér á landi sé mismunað eftir þjóðerni, þá einna helst þegar kemur að atvinnu og húsnæðismálum. Umræða um innflytjendur er oft á tíðum ómálefnaleg en þá er oftast um að ræða þekkingarleysi fremur en hatur.

Þetta kom fram í máli Þórunnar Lárusdóttur, verkefnastjóra átaksverkefnisins Vertu næs, við kynningu þess í höfuðstöðvum Rauða krossins í dag. Um er að ræða átak sem hvetur fólk til að líta í eigin barm, skoða hvernig það kemur fram við fólk sem hefur annan bakgrunn, annað litarhaft eða trú en það sjálft og athuga hvort það geti gert betur.

Hægt er að sýna málefninu stuðning með því að mynda hjarta og birta það á samskiptamiðlum með kassamerkinu #vertunaes.vísir/vilhelm
„Það er mjög mikilvægt fyrir íslenska samfélagið að ræða og gefa eitthvað í. Við erum á þannig stað að við getum gert eitthvað í þessum málum,“ sagði Þórunn á kynningunni í dag.

Þórunn lýsti yfir áhyggjum vegna aukinna fordóma í garð útlendinga hér á landi. „Við lögðumst í rannsóknir og ég er búin að kortleggja hvernig staðan er á Íslandi. Samkvæmt þeim rannsóknum sem ég hef skoðað kemur í ljós að fordómar og mismunun eru staðreynd í íslensku samfélagi. Rauði krossinn vill auðvitað gera eitthvað í því,“ sagði hún.

Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, sýnir verkefninu stuðning.vísir/vilhelm
Rauði krossinn ákvað í desember að fjármagna tveggja ára átaksverkefnið Vertu næs. Til stendur að koma upplýsingum til almennings á margvíslegan máta, með aðstoð samfélagsmiðla, fjölmiðla og leikhúsa svo eitthvað sé nefnt. Þá verður málsvarastarf Rauða krossins eflt og boðið verður upp á námskeið sem fyrirtæki eða einstaklingar geta fengið til þess að upplýsa um leiðir til að forðast ómeðvitaða eða meðvitaða mismunun.

Opnuð var vefsíða í tilefni verkefnisins en hún er meðal annars til þess fallin að auka umræðu um málefni innflytjenda á Íslandi.

Hægt er að sýna málefninu stuðning með því að mynda hjarta og birta það á samskiptamiðlum með kassamerkinu #vertunaes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×