Innlent

Nauðgunardómur ómerktur: Sakaður um að hafa nauðgað þroskahömluðum táningi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómur Héraðsdóms Suðurlands á Selfossi var dæmdur ómerktur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands á Selfossi var dæmdur ómerktur. Vísir/Pjetur
Hæstiréttur ómerkti í dag dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir manni sem sakfelldur var fyrir að hafa kvöld eitt í júlí 2012 káfað innanklæða á sautján ára þroskahömluðum dreng og síðar um nóttina haft við hann kynferðismök. Var maðurinn sakaður um að hafa nýtt sér yfirburðarstöðu gagnvart táningnum sökum aldurs- og þroskamunar en auk þess hefði drengurinn ekki getað spornað við verknaðinum vegna andlegrar fötlunar.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að maðurinn og drengurinn séu samkynhneigðir. Drengurinn sagði manninn hafa káfað á sér innanklæða umrætt og kvöld og sagst vilja hitta sig síðar. Þá myndi hann hafa við hann kynferðismök. Það gekk eftir.

Á drengnum var helst að skilja að hann hefði heimsótt manninn síðar um kvöldið til að athuga hvort ákærði væri enn fullur og óska eftir afsökunarbeiðni vegna kynferðislegrar áreitni. Ákærði hefði hins vegar sagt að hann sæi að táningurinn væri til í tuskið, sem hann sagðist ekki hafa verið. Hann hefði hins vegar orðið ofsahræddur og ekki hafa getað veitt viðnám. Auk þess hefðu útidyrnar verið læstar. Eftir því sem fram kom í málinu virðist ákærði ekki hafa haft fyrir venju að læsa útidyrum sínum og er táningurinn missaga um hvort þær hafi verið læstar eður ei.

Hæstiréttur gerir athugasemdir við hvernig dómkvaddur matsmaður, sem fenginn var til þess að leggja mat á ástand drengsins, vann vinnuna sína. Ákærði hefði ekki verið boðaður til þings, hann fékk ekki kost á að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd matsins auk þess sem hinn dómkvaddi matsmaður, sem er sálfræðingur, hélt ekki matsfund áður en matsgerð lauk eins og gert sé ráð fyrir.

Fyrir dómi kom fram að matsmaður hefði litið svo á að hans helsta hlutverk væri að meta líðan brotaþola fyrir og eftir meint brot. Hins vegar var upphaflegur tilgangur þess að kalla til matsmann að meta þroska og heilbrigðisástand táningsins.

Fer málið því aftur fyrir héraðsdóm. Ekki kemur fram hve þungan dóm maðurinn hlaut í héraði.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×