Innlent

Vilja að ríkið komi að málefnum Grímseyjar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Hverfisráð Grímseyjar hélt íbúafund í Félagsheimilinu Múla í Grímsey í gær. Fulltrúar bæjarstjórnar Akureyrar, Byggðastofnunar og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar voru sérstaklega boðaðir á fundinn. Á fundinum var rætt um stöðu og möguleika í sjávarútvegi í eyjunni, framtíðarhorfur og þróun byggðar.

Á vef Akureyrarbæjar segir að um 40 manns hafi sótt fundinn og að mikill samhugur hafi verið meðal fólks um að finna leiðir til að tryggja blómlega byggð í Grímsey.

Fundargestir komust að þeirri niðurstöðu að eina leiðin til að mál þokuðust eitthvað áfram væri að kalla ríkisvaldið, þingmenn og ráðherra að borðinu og knýja fram lausnir á þeim vanda sem við blasir með samhentu átaki allra þeirra sem að málinu koma.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri sagði að hart hefði verið lagt að Byggðastofnun styðja Grímsey með verkefninu Brothættar byggðir. Skýr svör hefðu þó ekki borist. Fulltrúi Byggðarstofnunnar komst ekki á fundinn.

„Atvinnulífið hér stendur á einni meginstoð og þegar hriktir í henni þá vofir augljóslega yfir okkur öllum mikil hætta,“ sagði Eiríkur Björn.

Hvert áfallið hefur rekið annað í sjávarútvegi í Grímsey, samkvæmt Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Þorvaldur Lúðvík sagði að reynt hefði verið til þrautar að finna lausn mála með fundum fulltrúa Byggðastofnunar, Akureyrarbæjar og Íslandsbanka  og því yrði haldið áfram.

Útgerðarmenn lýstu hálfgerðri stöðnun í sjávarútvegi í Grímsey. „Ég held að við ættum að stefna að því að fá þingmenn til að heimsækja okkur svo þeir átti sig betur á stöðunni og alvarleika málsins,“ sagði Guðrún Gísladóttir útgerðarmaður í Grímsey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×