Innlent

Séra Birgir Ásgeirsson kveður

Atli Ísleifsson skrifar
Séra Birgir Ásgeirsson.
Séra Birgir Ásgeirsson. Mynd/Hallgrímskirkja
Prestaskipti verða í Hallgrímskirkju á næstunni en séra Birgir Ásgeirsson varð sjötugur 9. mars síðastliðinn. Hann mun kveðja Hallgrímssöfnuð í messu þann 22. mars.

Í tilkynningu frá kirkjunni segir að Birgir hafi þjónað sem prestur Hallgrímskirkju frá árinu 2006 og verið prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra síðustu fjögur ár.

„Birgir var vígður til Siglufjarðar árið 1973 og varð sóknarprestur í Mosfellsprestakalli árið 1976. Frá 1990 og í fimm ár var hann sjúkrahúsprestur og frá 1996 prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn og þjónaði einnig Íslendingum í Svíþjóð um tíma frá 1997. Birgir var sjúkrahúsprestur frá árinu 2002 þar til hann varð prestur Hallgrímskirkju.

Sr. Birgir á að baki afar farsælan feril sem prestur þjóðkirkjunnar. Að auki hefur hann starfað hjá ýmsum félögum, samtökum og fyrirtækjum og verið kallaður til ábyrgðarstarfa. Birgir er kunnur fyrir sálgæslufærni og nýtur virðingar fyrir lagni í stjórn kirkjumála í Reykjavík. Í Hallgrímskirkju hafa prédikanir hans og hugleiðingar vakið verðskuldaða athygli.

Eftir kveðjumessuna, sem hefst kl. 11 eins og barnastarf kirkjunnar, verður kaffi á könnu og kaka á borði í Suðursal kirkjunnar. Allir eru velkomnir. Hallgrímssöfnuður þakkar sr. Birgi Ásgeirssyni frábæra þjónustu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×