Innlent

Meintur nauðgari þarf að víkja úr sal

Samúel Karl Ólason skrifar
"Það er mat sálfræðingsins að slík reynsla gæti valdið raunverulegu bakslagi og hægt á bata hennar. Mikilvægt sé því að brotaþoli verði ekki sett í þær aðstæður.“
"Það er mat sálfræðingsins að slík reynsla gæti valdið raunverulegu bakslagi og hægt á bata hennar. Mikilvægt sé því að brotaþoli verði ekki sett í þær aðstæður.“ Vísir/Getty/Hari
Meintum nauðgara verður gert að víkja úr dómsal þegar brotaþoli ber vitni í nauðgunarmáli í Héraðsdómi Reykjaness. Hæstiréttur telur að nærvera hans gæti orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi og haft áhrif á framburð hennar. Slík ákvörðun telst sjaldgæf.

Áður hafði Héraðsdómur Reykjaness komist að sömu niðurstöðu, en Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn í gær, en dóminn má sjá hér í heild sinni.

Manninum er gert að hafa notfært sér svefndrunga og ölvun hennar til að nauðga henni í nóvember 2013. Þegar hún vaknaði mun hann hafa kýlt í hnakka hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut kúlu aftan á hnakka og aðra kúlu ofarlega á hnakka vinstra megin og þreifieymsli á vinstra kjálkabeini.

Aðalmeðferð málsins átti að fara fram þann 13. mars síðastliðinn, en réttargæslumaður konunnar fór fram á að maðurinn yrði færður úr salnum á meðan hún gæfi skýrslu. Saksóknari tók undir þá beiðni.

Maðurinn hafnaði beiðninni, en konan vísaði til vottorðs sálfræðings um alvarlegar afleiðingar sem meinta nauðgunin hafði á hana. Þar kemur fram að hún sýni alvarleg áfallastreitueinkenni sem rekja megi til meintrar nauðgunar og hafi þau aukist eftir því sem aðalmeðferðin hafi dregist nær.

„Það er mat sálfræðingsins að slík reynsla gæti valdið raunverulegu bakslagi og hægt á bata hennar. Mikilvægt sé því að brotaþoli verði ekki sett í þær aðstæður.“

Maðurinn vísaði hins vegar til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og til 1. mgr. og d. liðar 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu máli sínu til stuðnings, sbr. lög nr. 62/1994. Einnig vísaði hann til meginreglunnar um réttláta málsmeðferð sem í felist réttur ákærða til að vera viðstaddur öll þinghöld í málinu.

Í dómi héraðsdóms segir að það sé meginregla sakamálaréttarfars að ákærði „eigi þess kost að vera viðstaddur aðalmeðferð og önnur þinghöld í máli sem höfðað hefur verið gegn honum.“

Niðurstaða dómsins var að hagsmunir brotaþola af því að geta eins og á stendur gefið skýrslu án nærveru ákærða vegi þyngra en hagsmunir ákærða af því að vera viðstaddur skýrslugjöf brotaþola. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×