Innlent

Byggðastofnun vill úr húsi Kaupfélagsins

sveinn arnarsson skrifar
Nýr formaður stjórnar Byggðastofnunar er stjórnarmaður í Kaupfélagi Skagfirðinga.
Nýr formaður stjórnar Byggðastofnunar er stjórnarmaður í Kaupfélagi Skagfirðinga.
Byggðastofnun ætlar sér að fara úr húsnæði Kaupfélags Skagfirðinga á næstu misserum og segja upp leigunni við kaupfélagið. Ætlar Byggðastofnun að byggja nýtt húsnæði sem myndi spara stofnuninni mikla peninga á hverju ári.

Á síðasta stjórnarfundi Byggðastofnunar þann 13. mars síðastliðinn lýsti Kaupfélag Skagfirðinga áhuga sínum á viðræðum við stofnunina um áframhaldandi leigu. Telur Kaupfélagið það þjóna hagsmunum sínum vel að endursemja við Byggðastofnun um leigu. „Ég á ekki von á stefnubreytingu Byggðastofnunar við skiptin á formanni stjórnar. Ég tek við góðu búi og síðustu ár hefur Byggðastofnun vaxið og dafnað. Því á ég ekki von á því að mikið breytist. Fremur hugsa ég um að halda áfram hinu góða starfi sem unnið hefur verið hjá Byggðastofnun síðustu ár,“ segir Herdís.

Ódýrara er fyrir Byggðastofnun að byggja nýtt hús og flytja inn í það en að leigja hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Herdís Sæmundardóttir, nýr formaður stjórnar Byggðastofnunar, telur enga hagsmuni skarast af því að vera bæði formaður stjórnar Byggðastofnunar og stjórnarmaður í Kaupfélaginu.

Auglýst hefur verið eftir áhugasömum verktökum til að hefja nýbyggingu fyrir Byggðastofnun.

„Ef einhverjir hagsmunir skarast milli Kaupfélags Skagfirðinga og Byggðastofnunar mun ég víkja. Það er alveg á hreinu. Ég á ekki von á því að það muni gerast oft enda hagsmunir Kaupfélags Skagfirðinga ekki oft að skarast við hagsmuni Byggðastofnunar sem sinnir fjölmörgum verkefnum víðs vegar um landið,“ segir Herdís. „Ég mun í störfum mínum fyrir Byggðastofnun leggja mig fram um að verja hagsmuni stofnunarinnar svo hún geti með bestu móti starfað fyrir fjölbreyttar byggðir landsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×