Innlent

Kjarnorkuhótanirnar ábyrgðarlausar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Vísir/Valli
„Öll viðbrögð okkar eru í samræmi við tilefnið hverju sinni,“ segir framkvæmdastjóri Norður-Atlantshafsbandalagsins um þær aðgerðir sem gripið hefur verið til gegn Rússlandi undanfarið.

„Þetta eru varnarviðbrögð og þau eru algerlega í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það er Rússland sem brýtur gegn alþjóðalögum og breytir landamærum með valdbeitingu.“

Hann segir að við innlimun Krímskaga í Rússland hafi það gerst í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins að eitt ríki innlimi hluta annars ríkis.

„Þetta eru frekleg brot á alþjóðalögum og auk þess eru þeir að grafa undan stöðugleika í austanverðri Úkraínu. Og þess vegna verður NATO að bregðast við. Við getum ekki bara setið hjá og horft á þetta gerast.“

Hann segir NATO hafa meðal annars brugðist við þessu ástandi með því að tvöfalda liðsaflann í viðbragðssveitum sínum, úr 15 þúsund manns í 30 þúsund, og koma sér upp svokallaðri forystusveit (Spearhead force) sem á að bregðast við hættuástandi hvar sem það kann að koma upp.

„Með því að búa til öflugar varnir þá erum við einnig að skapa stöðugleika, því sterkar varnir og fælingarmáttur þeirra skapa fullvissu og þar með stöðugleika, og það skiptir einnig máli fyrir Ísland, Sjálfur er ég frá Noregi og þekki því vel að þar töldu menn lengi að við gætum einangrað okkur. En við lærðum þá lexíu í seinni heimsstyrjöldinni að við erum partur af heiminum, og enn frekar erum við það núna.“ Sterkt varnarbandalag skiptir sköpum fyrir smáríki á borð við Ísland og Noreg, segir Stoltenberg.

Sérlega ánægjuleg heimsókn

Hann er staddur hér á landi í stuttri heimsókn, kom í gær og hitti þá bæði Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra.

Stoltenberg segir heimsóknina hingað sérlega ánægjulega fyrir sig, þar sem hann hafi lengi verið í góðum tengslum við Ísland.

Sjá einnig: Öryggismál ofarlega á baugi á fundi Sigmundar og Stoltenberg

„Ég er að koma hingað í fyrsta sinn sem framkvæmdastjóri NATO en hef komið hingað margoft áður í ólíkum erindagjörðum.

Markmið heimsóknarinnar er fyrst og fremst að þróa áfram samband Íslands og NATO, sem Stoltenberg segir hafa verið afar gott, og ræða hið breytta öryggisumhverfi í heiminum.

Með breytingum á öryggisumhverfi segist hann einkum eiga við tvennt. Annars vegar aukinn yfirgang Rússa gagnvart Úkraínu og hins vegar þær hættur sem stafa af ólgunni og ofbeldisverkum í ríkjum Mið-Austurlanda og Norður-Afríku.

„Ofbeldið í suðri hvetur einnig til hryðjuverka á götum okkar eigin borga, þannig að það er þessi blanda af hryðjuverkum, ofbeldi og ólgu í suðri og svo yfirgangssamara Rússlandi sem skapar þetta nýja öryggisumhverfi, sem NATO þarf að laga sig að. Styrkur NATO er sá að okkur hefur áður tekist að aðlagast breyttu öryggisumhverfi. Í fjörutíu ár sáum við um sameiginlegar varnir, og svo eftir lok kalda stríðsins þegar Berlínarmúrinn féll þá einbeittum við okkur að því að bregðast við hættuástandi utan okkar svæðis, í Afganistan, á Balkanskaga og í Líbíu. Nú þurfum við að sinna hvoru tveggja.“

Viljum viðræður

Hann er spurður frekar út í þá hættu sem NATO sér í Rússlandi. Rússar sjálfir líta málin öðrum augum og segja að það séu ekki Vesturlönd sem séu í hættu vegna yfirgangs Rússa, heldur séu Rússar í hættu vegna yfirgangs Vesturlanda. Vladimír Pútín Rússlandsforseti bregst við af fullri hörku, segir það tilgangslaust með öllu að reyna að beita Rússland þrýstingi. Þvert á móti vilji hann fara leið viðræðna og leita að pólitískum lausnum á ágreinginsmálunum.

Sjá einnig: Stoltenberg segir alvarlegt að Rússar hafi breytt landamærum Evrópu

„NATO vill ekki eiga í átökum við Rússland,“ segir Stoltenberg. „Þvert á móti hefur NATO tekið skýrt fram að við viljum eiga í uppbyggilegum tengslum við Rússland og eiga gott samstarf við Rússa. Við teljum að það komi sér betur bæði fyrir Rússland og fyrir okkur. Og ég trúi því að sterkar varnir séu ekki í andstöðu við viðræður. Sterkar varnir og fælingarmáttur þeirra skapa grundvöll fyrir samstarf og samræður. Þetta var líka mín reynsla sem forsætisráðherra Noregs. Að því leyti eru þarna engar andstæður heldur bætir þetta hvort annað upp, fælingin og samræðurnar.“

Kjarnorkuhótarnir eru ábyrgðarleysi

Nýlega hafa jafnvel heyrst frá rússneskum stjórnvöldum hótanir um beitingu kjarnorkuvopna.

„Jafnvel þótt þetta sé bara mælskufroða þá er þetta samt ábyrgðarlaust. Þetta er bara partur af þessum aukna yfirgangi Rússlands sem við höfum séð undanfarið. Fyrir hönd NATO vil ég hins vegar leggja áherslu á að valið er hjá Rússum. Þeir geta kosið að halda áfram á braut einangrunar og átaka eða þeir geta kosið leið samvinnu og borið virðingu fyrir nágrannaríkjum sínum, alþjóðalögum og landamærum. Og það er mjög auðvelt að bera virðingu fyrir landamærum. Það þarf ekki annað en að láta eiga sig að fara yfir þau.“

Stoltenberg gefur ekki mikið fyrir ásakanir Pútíns um að Vesturlönd hafi stutt til valda ólöglega byltingarstjórn hægri þjóðernissinna í Kænugarði.

„Nei, það eru Rússar sem hafa beitt valdi og íhlutast í málefni Úkraínu. Staðan er sú að við styðjum þarna lýðræðislega kjörin stjórnvöld en Rússland er að brjóta gegn fullveldi og landamærahelgi sjálfstæðs ríkis með því að styðja aðskilnaðarsinna og senda inn herlið og grafa undan Minsk-samkomulaginu.“

Norrænt varnarsamstarf eflt

Stoltenberg tók við stöðu framkvæmdastjóra NATO árið 2013. Hann hafði þá verið forsætisráðherra Noregs árum saman og tók við af Anders Fogh Rasmussen, sem sjálfur hafði verið forsætisráðherra í Danmörku, þannig að forysta NATO hefur verið í höndum norrænna stjórnmálaleiðtoga býsna lengi.

Sjá einnig: Landhelgisgæslan tók vel á móti Stoltenberg

Stoltenberg segist sérlega áhugasamur um varnarsamstarf Norðurlandanna, sem nú stendur til að efla.

„Þetta er þróun sem hefur verið í gangi í einhvern tíma og er til hagsbóta fyrir okkur öll. Þetta er mikilvægt fyrir Ísland og þetta er mikilvægt fyrir norræna samvinnu, og svo er þetta líka mikilvægt fyrir NATO.“

Hann minnir líka á að frumkvæðið að þessu norræna varnarsamstarfi kom frá Stoltenbergnefndinni, sem faðir hans, Thorvald Stoltenberg, stýrði. 

„Ég veit að hann er mjög stoltur af því sem er að gerast á þessu sviði núna.“

Sjálfur hvatti Stoltenberg nýverið ríki Evrópusambandsins til þess að auka framlög sín til varnarmála.

„Ég hvatti raunar alla bandamenn okkar til þess að standa við skuldbindingar sínar, sem eru þær að við eigum að hætta niðurskurði á fjármunum til varnarmála og byrja að auka þessi fjárframlög þangað til þau verða 2 prósent af vergri landsframleiðslu. Ég veit að Ísland hefur hér ákveðna sérstöðu þar sem Ísland er ekki með nein útgjöld til varnarmála. Hins vegar er Ísland samt með mikilvægt framlag til bandalagsins með því að styðja verkefni okkar í Afganistan, með því að styðja verkefni okkar í Úkraínu og hjálpa þeim að nútímavæðast og með því starfi sem þið sinnið í tengslum við loftrýmisgæslu á friðartímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×