Innlent

Kjaraviðræðum VR við SA vísað til ríkissáttasemjara

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, (t.h) segir trúnaðarbrest hafa orðið milli verkalýðshreyfingar og stjórnvalda.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, (t.h) segir trúnaðarbrest hafa orðið milli verkalýðshreyfingar og stjórnvalda. Vísir/Anton Brink
Kjaraviðræðum VR við Samtök atvinnulífsins verður vísað til ríkissáttasemjara. Þetta var einróma niðurstaða trúnaðarráðs VR en haldinn var fjölmennur fundur í gærkvöldi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem stafar frá formanni VR, Ólafíu B. Rafnsdóttur. Að óbreyttu verður kjaradeilunni vísað til ríkissáttasemjara í dag. „Á hinum almenna vinnumarkaði blasa verkfallsaðgerðir við,“ segir í fréttatilkynningunni. „Kröfugerð VR miðar að því að hækka lægstu launin myndarlega. Þar liggur okkar áhersla. Á fundi trúnaðarráðs í gærkvöldi var hugur í fólki og mikil samstaða. Á þeim grunni höldum við áfram.“

Í tilkynningunni segir jafnframt: „Við höfum reynt síðustu vikur að koma hreyfingu á viðræður en þær tilraunir hafa skilað litlum árangri. Það er því okkar mat að skynsamlegast sé að vísa deilunni til sáttasemjara. Vonandi mun aðkoma hans leiða til þess að viðræður komist á meira skrið.“

Trúnaðarbrestur milli verkalýðshreyfingar og stjórnvalda

VR og Landssamband verzlunarmanna lögðu fram kröfugerð sína í febrúar á þessu ári en kjarasamningar runnu út fyrir sjö vikum. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR telur viðræðurnar hafa gengið mjög hægt og bendir á að launaliðir kjarasamningsins hafi ekkert verið ræddir, þar skilji enn mikið á milli.

Tilkynningin er harðorð í garð stjórnvalda en þar er vísað í kjarasamninginn sem VR skrifaði undir í lok árs 2013 með það að markmiði að auka kaupmátt. „Sá trúnaðarbrestur sem varð milli verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda skömmu eftir undirritun þess samnings er alvarlegri en stjórnvöld virðast gera sér grein fyrir,“ skrifar Ólafía. „Ég hef ítrekað talað fyrir mikilvægi þríhliða samstarfs á vinnumarkaði en þegar traustið er farið, reynist það þrautin þyngri. Stjórnvöld verða að ávinna sér traustið aftur, yfirlýsingar um góðan vilja duga ekki lengur.“

Ólafía segir lægstu laun enn skammarlega lág, þau dugi ekki fyrir lífsnauðsynjum og að krafa VR sé að dagvinna verði að duga fyrir framfærslu. Þrátt fyrir að þetta sé staðreynd segi forystumenn stjórvalda kaupmátt aldrei hafa verið meiri og „lýsa því yfir að allt sé hér í blóma,“ að því er segir í fréttatilkynningunni.

VR hefur skipað í verkfallsnefnd félagsins en hún er skipuð fulltrúum LÍV. Verkefni hennar er að skipuleggja aðkomu VR og annarra aðildarfélaga LÍV að verkfallsaðgerðum á almennum vinnumarkaði ef að sú verður niðurstaðan að lokum.


Tengdar fréttir

Stefna VR gegn ríkinu þingfest

Stefna VR gegn íslenska ríkinu, vegna breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, 15. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×