Skoðun

Einnota ríkisstjórn

Kári Stefánsson skrifar
Það er orðið lýðum ljóst að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun ekki sitja lengur en sem nemur kjörtímabilinu. Ástæðan er margþætt og það á við hér eins og segir í Geirmundarsögu Heljarskinns að: „það renna margir orsakalækir að einum ósi örlaga.“ Rýnum nú í þau spjöld í sögu ríkisstjórnarinnar sem gera það að verkum að það er búið að skammta henni þá daga sem hún mun telja.

Að svelta heilbrigðiskerfið er ekki bara ljótt heldur vond pólitík

Í málflutningi sínum fyrir síðustu alþingiskosningar gagnrýndu núverandi stjórnarflokkar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hola að innan heilbrigðiskerfið og hétu því að styðja það betur ef þeir kæmust á valdastóla. Þetta gladdi þá okkar sem eru nægilega vitgrannir til þess að hlusta á það sem stjórnmálamenn segja fyrir kosningar. Nú æxluðust mál þannig að afturendar hinna loforðaglöðu hafa vermt valdastóla í tvö og hálft ár en heilbrigðiskerfið er í engu minna rusli en áður og það horfir ekki til bóta nema síður sé.

Það uppkast að fjármálafrumvarpi ársins 2016 sem nú liggur fyrir Alþingi gerir ráð fyrir því að fjárframlög til Landspítalans verði óbreytt þótt það sé ljóst að það muni kosta fjórum milljörðum meira þá en nú að halda uppi sömu þjónustu og hefur verið veitt í ár. Það á sem sagt ekki einu sinni að halda í horfinu hvað þá að gera betur.

Þetta er sama ríkisstjórnin og segist vilja reisa nýtt hús yfir Landspítalann fyrir hundrað milljarða króna og segir gjarnan, upp fyrir haus í sínum dæmigerða ruglingi, að hún vilji reisa nýjan Landspítala þótt spítalinn sé miklu meira og allt annað en hús þótt hann þurfi svo sannarlega á húsi að halda. Húsið er nefnilega ekki bara loforð sem verður erfitt að efna, það er líka skjól sem ríkisstjórnin felur sig á bak við þegar henni er bent á að það sé ýmislegt sem vanti upp á Landspítala.

Þegar maður er ríkisstjórn sem hefur lokkað að sér kjósendur með því að lofa því að bæta heilbrigðiskerfið þá endurreisir maður Landspítalann með því að sjá honum fyrir þeim tækjum sem nútíma læknisfræði kallar á og því fagfólki sem þarf til að hlúa að sjúkum og meiddum meðan maður safnar liði til þess að reisa nýtt hús. Það eru nefnilega margar leiðir aðrar en að reisa hús til þess að bæta heilbrigðiskerfið og spara með því þegar til langs tíma er horft.

Eitt slíkt dæmi

Gáttaflökt er algengast þeirra hjartsláttaróreglna sem koma þolendum í hendur heilbrigðiskerfisins. Um það bil 25% Íslendinga fá kast af gáttaflökti einhvern tíma á ævinni og þar af fær stór hundraðshluti endurtekin köst eða óreglan verður viðvarandi. Einn af fylgifiskum gáttaflökts er heilablóðfall og er gáttaflöktið ábyrgt fyrir í það minnsta 30% þeirra. Þess vegna eru þolendur settir á blóðþynningu til þess að fyrirbyggja heilablóðföll og þegar þeir fá kast eru þeir svæfðir og þeim veitt rafstuð til þess að reyna að koma þeim í réttan takt, sem er kallaður sínus og það veit sá einn sem í flökti hefur lent hvað sínusinn er mikil blessun.Nýverið hafa læknar á Landspítalanum, undir forystu Sigfúsar Gissurarsonar sem er ungur snillingur, farið að gera flókna brennsluaðgerð til þess að fyrirbyggja köst hjá þeim sem hafa fengið þau. Hann segir mér að á landi hér sé þörf á um það bil 150 slíkum aðgerðum á ári, en hann fær ekki leyfi til þess að gera nema 60. Það er sem sagt biðlisti fyrir þessar brennsluaðgerðir sem lengist um eitthvað minna en 90 á ári vegna þess að einhverjir á listanum deyja af sjúkdómnum eða öðru.

Hver aðgerð kostar um 700.000 krónur þannig að hann fær 42 milljónir á ári en þyrfti 105 milljónir til þess að sinna þörfinni. Afleiðingin af þessum 63 milljóna króna sparnaði er kostnaður sem er vafalítið margföld sú upphæð í lyfjum þeirra sem ekki þyrftu þau eftir aðgerð og í kostnaði við rafvendingarnar, að maður tali nú ekki um ávinninginn af vellíðan og starfsgetu þeirra sem eru allt í einu komnir í viðvarandi sínus.

Sú staðreynd að ákvörðunin um að það megi ekki gera nema 60 brennsluaðgerðir á ári var tekin af skriffinni einhvers staðar í stofnun sem heitir Sjúkratryggingar Íslands breytir ekki því að það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa fólksins í landinu að framselja valdið til þess að taka svona ákvarðanir. Þetta er ákvörðun sem endanlega kostar þjóð stórfé og einstaklinga þjáningu og jafnvel varanlega fötlun eða lífið. Það væri sjálfsögð betrumbót á heilbrigðiskerfinu að leyfa Sigfúsi að mæta þörfinni fyrir brennsluaðgerðir að fullu þótt henni fylgi skammtímakostnaður.

Eftir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað og þann einróma vilja sem fólkið í landinu hefur tjáð að Landspítalinn fái meira er sú ríkisstjórn dauðadæmd sem stendur bísperrt fyrir framan fólkið og segir Landspítalinn, ekki meir, ekki meir. Þetta er sama ríkisstjórnin og leggur til í uppkasti að fjárlögum að fjárframlög til kirkjunnar verði aukin.

Þegar ég benti lækni nokkrum vini mínum á hvað það væri skringilegt að þjóð sem ekki hefði efni á að sinna brýnum vandamálum heilbrigðiskerfisins yki útgjöld til einnar tegundar annarslífstrúar svaraði hann að kannski stafaði það af því að hæstvirtur fjármálaráðherra hafi raunverulegt innsæi inn í vandamál heilbrigðiskerfisins en í stað þess að leysa þau ætli hann að sjá til þess að þeir sem látist af þeirra völdum verði jarðsungnir með stæl og komi ekki til með að skorta góðar jarðarfarir.Mér fannst þetta bara svona rétt mátulega fyndinn fimmaura brandari en engu fáránlegri en efni málsins, sem er aukið fé til kirkjunnar en raunverulega minna til Landsspítalans.

Hvers konar áhættu er þessi ríkisstjórn reiðubúin að taka?

Þetta fjársvelti Landspítalans og heilbrigðiskerfisins í heild sinni er svartur blettur á íslenskri menningu. Fjárfesting okkar í heilbrigðiskerfinu er langt undir OECD meðaltali. Það er ekki bara ríkisstjórnum um að kenna heldur allri þjóðinni vegna þess að við kusum fólk til þess að stjórna landinu sem ákvað að svona ætti þetta að vera. Þetta á ekki bara við um núverandi ríkisstjórn því ástandið var jafnvel verra undir þeirri síðustu. Hvernig stendur á því að við sem þjóð sættum okkur við að hlúa svona illa að sjúkum og meiddum samborgurum okkar? Við þeirri spurningu veit ég ekkert annað svar en að það hlýtur að vera eitthvað mikið að höfuðskeljainnihaldinu okkar.

Hvaða úrræði hafa þá staðið stjórnvöldum til boða til þess að hysja heilbrigðiskerfið upp á ásættanlegan stað? Það er ekki of mælt að ætla að það þyrfti um það bil 150 milljarða króna til þess. Og hvaðan ættu þeir svo sem að koma? Í leit að svari við þeirri spurningu beinist athyglin að þrotabúum þeirra banka sem settu samfélagið á hliðina. Fyrr á árinu gáfu Sigmundur og Bjarni það í skyn að ríkið myndi sækja allt að 850 milljarða króna í þrotabúin en þegar upp er staðið virðist það ætla að verða um 300 milljarðar. Ekki hafa fengist haldgóðar skýringar á því hvers vegna þeir sætta sig við svo skarðan hlut en eitt er víst að 500 milljarðarnir sem á milli ber hefðu gert gott betur en að laga íslenskt heilbrigðiskerfi.

Það lítur helst út fyrir að nægjusemi flokksforingjanna tveggja eigi rætur sínar í því að þeir hafi ekki viljað taka þá áhættu að styggja aðra kröfuhafa í þrotabúin með því að taka meira. Það er dapurlegt að sitja uppi með kornunga leiðtoga sem ættu aldur síns vegna að vera hungraðir, kraftmiklir og hugrakkir en þora ekki að taka það sem við þurfum og eigum skilið. Það er eins og þeir geri sér ekki grein fyrir því að það er miklu meiri áhætta tekin með því sækja ekki nægilegt fé í þá einu sjóði sem eru okkur aðgengilegir til þess að bylta íslensku heilbrigðiskerfi inn í nútímann. En þeir eru sem sagt reiðubúnari til þess að taka þá áhættu sem felst í því að láta þjóðina búa við stórgallað heilbrigðiskerfi og úrelt.

Og Sigmundur og Bjarni standa hoknir í hnjánum fyrir framan kröfuhafana sem eru fulltrúar hins erlenda auðvalds, og eru hreyknir yfir því að þeir kvörtuðu ekki undan dílnum sem þeir fengu og virðast ekki gera sér grein fyrir því að það voru ekki bara kröfuhafarnir sem glötuðu allri virðingu fyrir þeim þegar buxurnar þeirra fóru að blotna heldur hið alþjóðlega samfélag allt og ekki síst íslensk þjóð.

Að kunna ekki að skammast sín

Það var formaður fjárlaganefndar sem lét hafa það eftir sér um daginn að Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefði beitt nefndina andlegu ofbeldi þegar hann reyndi að útskýra fyrir henni fjárþörf spítalans. Þar gætti svolítils misskilnings af hennar hálfu því þótt það hafi brunnið á hörundi nefndarmanna að heyra lýst þeirri þörf sjúklinga sem þeir ætluðu ekki að mæta þá er ekki um ofbeldi að ræða af Páls hálfu heldur lýsingu á raunveruleika. Það má hins vegar deila um það hvað væri viðeigandi nafn á þann gjörning nefndarinnar sem fólst í því að daufheyrast við baráttu Páls fyrir því að spítalinn fengi í það minnsta að halda í horfinu.

Í stað þess að skammast sín ákvað formaðurinn að veitast að Páli og kalla hófstillta baráttu hans fyrir hagsmunum þeirra sem minnst mega sín í íslensku samfélagi andlegt ofbeldi. Nefndin virðist gleyma því að Páll er ekki að tala um göt í gegnum fjöll eða sendiráð í Tókíó heldur sjúkdóma fólksins í landinu, sársauka, kvíða, angist og líf og dauða og síðan sjúkdóma, sársauka, kvíða, angist og líf og dauða foreldra og barna fólksins. Og nefndin daufheyrist við því af botnlausum hroka og grimmd.

Við þetta verður ekki búið af því að í þessu landi býr gott fólk sem þykir vænt hverju um annað þótt á því finnist kannski einstaka undantekningar í ríkisstjórnum og þingnefndum. Þess vegna vil ég láta fjárlaganefnd vita að ef hún breytir ekki frumvarpinu á þann veg að mun meira fari til Landspítalans munum við nokkrir félagar safna 100.000 undirskriftum undir plagg sem hvetur landsmenn til þess að kjósa aldrei aftur þá stjórnmálaflokka sem standa að þessari ríkisstjórn vegna þess kulda og afskiptaleysis sem hún sýnir sjúkum og meiddum í okkar samfélagi. Söfnunin verður létt verk og löðurmannlegt. Þjóðinni ofbýður.
Skoðun

Skoðun

Creditinfo

Daníel Freyr Rögnvaldsson skrifar

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.