Það er einmitt verkefnið sem ráðgjafahópurinn hefur verið að fást við undanfarin ár undir forystu Jóns Bernódussonar, fagstjóra rannsókna og þróunar hjá Samgöngustofu. Í hópnum sitja nokkrir af reyndustu fagmönnum þjóðarinnar á þessu sviði; skipaverkfræðingur, vélfræðingur, byggingaverkfræðingur, efnaverkfræðingur og vélaverkfræðingur.

„Það er eldsneyti sem passar á vélarnar í dag og þá getum við byrjað strax,“ segir Jón Bernódusson skipaverkfræðingur í viðtali í fréttum Stöðvar 2. Lífdísill sé þegar orðinn íblöndun, með 5% fyrir umferð í landi og erlendis séu dæmi um 7% hlutfall.
Jón telur að með því að nota repju til uppgræðslu gætu Íslendingar slegið tvær flugur í einu höggi og í raun framleitt alla þá olíu sem flotinn þyrfti. Meðan repjan vaxi taki hver hektari í sig að meðaltali sex tonn af CO 2. Við bruna skili hún svo þremur tonnum til baka.
„Þannig að við erum að tala um tvöfalda kolefnisjöfnun,“ segir Jón.
Smábátar úr trefjaplasti gætu síðan skipt yfir á rafmótora en með varavél sem gengi þá fyrir lífdísil.
„Síðan er möguleiki, eins og menn eru að gera í Noregi, að vera með aðeins stærri skip, sem eru að sigla á milli fjarða, og eru þá úr áli, sem er léttara en stál. Þá ertu að keyra léttari skip á rafmótorum, sem hefur alveg gengið og mun ganga,“ segir Jón.

Íslensku ráðgjafarnir telja að stærri skip yrðu áfram úr stáli, þar á meðal stærri togarar, en hvetja til að tekin verði skref í smíði álskipa. Pálmi Stefánsson efnaverkfræðingur telur raunhæft að milli 800 og 900 minni skip í íslenska flotanum verði smíðuð úr áli. Eftir því sem skipin stækki verði hlutfall áls þó minna.