Körfubolti

Stigahæsti leikmaður Dominos-deildar kvenna ekki meira með á árinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chelsie Schweers.
Chelsie Schweers. Vísir/Vilhelm

Chelsie Schweers, bandaríski bakvörðurinn hjá nýliðum Stjörnunnar í Dominos-deild kvenna, mun missa af næstu leikjum Garðabæjarliðsins.

Stjarnan segir frá því á fésbókarsíðu sinni að Chelsie Schweers verði allavega frá keppni út árið.

Chelsie Schweers er handarbrotin en það kom ekki í ljós fyrr en hún var búin að spila þrjá leiki handarbrotin.

Chelsie meiddist í leik á móti Val en hafði síðan skorað 41 stig á móti Hamar, 34 stig á móti Haukum og 31 stig á móti Snæfelli. Ekki slæmt hjá leikmanni sem var að spila handarbrotin.

Chelsie Schweers hefur skorað 33,3 stig, tekið 8,0 fráköst og gefið 5,4 stoðsendingar að meðaltali í átta leikjum sínum í Domino´s deild kvenna í vetur.

Chelsie er mikil þriggja stiga skytta en auk þess að vera stigahæsti leikmaður Domino´s-deildarinnar þá hefur heldur enginn leikmaður skorað fleiri þriggja stiga körfur. Chelsie hefur skorað 31 þrist í 8 leikjum eða 3,9 að meðaltali í leik.

Stjarnan lék í fyrsta sinn án Chelsie Schweers í Keflavík á sunnudagkvöldið og tapaði þá með 23 stiga mun, 75-52.

Chelsie Schweers er ekki sú eina sem er frá keppni í Stjörnuliðinu. Hafrún Hálfdánardóttir er einnig meidd og þá hefur Bára Fanney Hálfdanardóttir einnig verið frá æfingum og keppni.

Stjörnuliðið er sem stendur í 6. sæti deildarinnar en einu sigrar liðsins hafa komið á móti Keflavík og botnliði Hamars.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.