Viðskipti innlent

Aðalmeðferð í þriðja sakamálinu gegn Kaupþingsmönnum frestað

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson vísir
Verjendur fá tíma til að kynna sér gögn sem sérstakur saksóknari lagði hald á í CLN-málinu svokallaða en vegna þessa hefur aðalmeðferð málsins sem átti að hefjast á morgun verið frestað um einn dag.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, eru í málinu ákærðir fyrir umboðssvik en um er að ræða þriðja málið sem sérstakur saksóknari hefur höfðað gegn þeim. Þremenningarnir afplána nú allir þunga fangelsisdóma á Kvíabryggju vegna Al Thani-málsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í  vikunni á kröfu verjenda í málinu um að fá aðgang að tölvupóstum tveggja nafngreindra aðila sem ákæruvaldið lagði hald á við rannsókn málsins en voru ekki lagðir fram fyrir dómi. Sérstakur saksóknari kærði úrskurðinn til Hæstaréttar en kærunni var vísað frá. Úrskurður héraðsdóms stendur því óraskaður.

Í málinu er þeim Hreiðari, Sigurði og Magnúsi gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína sem stjórnendur Kaupþings í lánveitingum til nokkurra eignarhaldsfélaga sem voru í eigu vildarviðskiptavina bankans.

Lánin voru svo notuð til að kaupa skuldatryggingar Kaupþings banka, svokölluð Credit Linked Notes, með það fyrir augum að lækka skuldatryggingarála bankans í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Í ákærunni kemur fram að lánin hafi numið tugum milljarða króna.

Þremenningarnir neita allir sök.


Tengdar fréttir

Sakaðir um umboðssvik vegna lána til vildarvina

Ákæra á hendur fyrrverandi stjórnendum Kaupþings, þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni fyrir umboðssvik, verður þingfest í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Fá aðgang að tölvupóstum í CLN-málinu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Magnúsar Guðmundssonar um að fá aðgang að tölvupóstum tveggja nafngreindra aðila í CLN-málinu svokallaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×