Viðskipti innlent

„Þessi ákæra er röng og ég er saklaus“

Kolbeinn Tumi Daðason og skrifa
Hreiðar Már yfirgefur dómsalinn í dag.
Hreiðar Már yfirgefur dómsalinn í dag. Vísir/Pjetur

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, neitaði sök við þingfestingu máls á hendur honum, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir eru sakaðir um umboðssvik.



Hreiðar var sá eini hinna þriggja sem var viðstaddur þingfestinguna í dag. Sigurður og Magnús munu mæta fyrir dóminn 4. júlí og taka afstöðu til ákærunnar.



„Ég starfaði í fimmtán ár hjá Kaupþingi, þar af tíu ár sem forstjóri og aðstoðarforstjóri,“ sagði Hreiðar Már í dómssal í dag. Hann neitaði sök í málinu.



„Ég tók aldrei ákvörðun gegn hagsmunum bankans. Þessi ákæra er röng og ég er saklaus.“



Þremenningarnir eru ákærðir í þriðja sinn af sérstökum saksóknara en ákæran er vegna tugmilljarða lánveitingar vegna viðskipta með skuldatryggingar fyrir hrun.



Þeim er gert að hafa misnotað stöðu sína sem stjórnendur bankans í lánveitingum til nokkurra eignarhaldsfélaga sem voru í eigu vildarviðskiptavina bankans. Lánin voru svo notuð til að kaupa skuldatryggingar á Kaupþings banka, eða svokölluð Credit Linked Notes, með það fyrir augum að lækka skuldatryggingarálag bankans í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Í ákærunni kemur fram að lánin hafi numið tugum milljarða króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×