Viðskipti innlent

Fá aðgang að tölvupóstum í CLN-málinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Magnúsar Guðmundssonar um að fá aðgang að tölvupóstum tveggja nafngreindra aðila í CLN-málinu svokallaða en málflutningur um kröfuna fór fram á fimmtudaginn í seinustu viku.

Hreiðar er fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður fyrrverandi stjórnarformaður bankans og Magnús fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg en þeir eru allir ákærðir fyrir umboðssvik.

Umræddir tölvupóstar eru á meðal gagna sem sérstakur saksóknari lagði hald á við rannsókn málsins en þeir eru ekki á meðal framlagðra gagna fyrir dómi. Því fóru sakborningarnir þrír fram á að fá aðgang að þeim en krafan var í fjórum liðum og var fallist á þriðja kröfuliðinn.

Samkvæmt úrskurði héraðsdóms mega sakborningarnir og/eða verjendur þeirra fá aðgang að tölvupóstunum í húsnæði sérstaks saksóknara, en sérstakur hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Snýst um tugmilljarða lánveitingar til vildarviðskiptavina

Aðalmeðferð í málinu á að hefjast næstkomandi fimmtudag. Ekki liggur ljóst fyrir hvort að aðalmeðferð geti þó hafist þá þar sem Hæstiréttur á enn eftir að taka afstöðu til úrskurðar héraðsdóms.

Þeim Hreiðari, Sigurði og Magnúsi er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína sem stjórnendur Kaupþings í lánveitingum til nokkurra eignarhaldsfélaga sem voru í eigu vildarviðskiptavina bankans.

Lánin voru svo notuð til að kaupa skuldatryggingar Kaupþings banka, svokölluð Credit Linked Notes, með það fyrir augum að lækka skuldatryggingarála bankans í aðdraganda bankahrunsins árið 2008. Í ákærunni kemur fram að lánin hafi numið tugum milljarða króna.

Þremenningarnir neita allir sök í málinu. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×