Innlent

Myndu fagna aukinni einkavæðingu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Svæðisstjóri heilsugæslunnar í Grafarvogi  telur að heimilislæknar myndu fagna aukinni einkavæðingu og segir að álagið á starfsemina í dag sé alltof mikið.

Rætt var um stöðu heilsugæslunnar á fundi Samfylkingarinnar á Loft Hosteli í Reykjavík í dag. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur sagði í sínu erindi að það væri ríkjandi skortur á pólitískri forystu og framtíðarsýn þegar kemur að heilbrigðismálum.

„Staðan í dag er sú að við erum að nota miklu meira af dýrasta þætti heilbrigðisþjónustunnar hér á Íslandi. Við erum að nota bráðaþjónustuna og sérgreinalækningar. Í flestum kerfum reyna menn að koma þessu þannig fyrir að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaðurinn. Til þess að svo verði þá þurfum við að beita ákveðnum aðferðum til þess að ná því. Þá er ekki nóg að innleiða það í lögum eða reglugerðum. Sá ráðherra sem ræður hann þarf að vera tilbúin að fylgja því eftir allt til enda,“ segir Sigurbjörg.

Ófeigur Þorgeirsson heimilislæknir og svæðisstjóri heilsugæslunnar í Grafarvogi tekur að mörgu leyti undir þetta og segir að starfsmenn heilsugæslunnar upplifi mikið álag.

Það þarf nauðsynlega að setja inn nýtt blóð þarna og nýtt fjármagn. Auka og efla heilsugæsluna á alla vegu til þess að mæta lágmarksþörfum,“ segir Ófeigur. Hann telur að heimilislæknar myndu fagna aukinni einkavæðingu.

„Almennt séð held ég að þeir myndu gera það. Menn eru svolítið þreyttir á þessari stöðnun sem hefur átt sér stað í kerfinu í heild sinni. Ekki bara í heilsugæslunni heldur í heild sinni. þannig að ég held að menn muni fagna öllum nýjungum sem kunna að koma,“ segir Ófeigur.


 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×