Innlent

Meint fjármálamisferli innan Tólfunnar

Jakob Bjarnar skrifar
Fjármálamisferli og tengsl eins úr Tólfunni er reiðarslag fyrir 12. mann íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Myndin er frá landsleik á Laugardalsvelli og tengist ekki fréttinni með beinum hætti.
Fjármálamisferli og tengsl eins úr Tólfunni er reiðarslag fyrir 12. mann íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Myndin er frá landsleik á Laugardalsvelli og tengist ekki fréttinni með beinum hætti.
Annar þeirra sem tengist þeim nauðgunarmálum sem hafa verið til umfjöllunar undanfarna daga er meðlimur Tólfunnar, stuðningsmannafélags íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Hann er jafnframt einn þriggja manna sem grunaðir eru um að tengjast fjármálamisferli sem nú er til rannsóknar; kæra verður lögð fram á næstu dögum.

Samkvæmt heimildum Vísis er um að ræða það að meðlimir Tólfunnar hafa gengið á milli fyrirtækja, safnað styrkjum í nafni félagsins en ætlað sér féð sjálfir. Um er að ræða umtalsverða fjármuni en Benjamín Hallbjörnsson, Benni bongó, formaður Tólfunnar segir að ekkert sé hægt að gefa upp um hversu mikið fé um ræðir á þessu stigi.

Benjamín staðfestir aðspurður að einn þeirra sem um ræðir sé annar þeirra sem hefur verið kærður í nauðgunarmáli sem hefur verið mjög til umfjöllunar að undanförnu.

„Já, Hann er enn skráður félagi í Tólfunni en vera hans í félaginu hefur reyndar verið til skoðunar nú í rúman mánuð.“

Benni bongó með landsliðsfyrirliðanum, glaðir á góðri stundu. Tólfan reynir nú að vinna úr leiðindamálum, til að vera klár í slaginn, næsti vináttuleikur er á föstudag, við Pólland.
Og, það er þá vegna þessa meinta fjármálamisferlis sem hefur verið til rannsóknar?

„Já, það er rétt. En, nöfn þeirra sem tengjast þessu leiðindamáli, sem nú hefur verið til rannsóknar í rúman mánuð, þau verða ekki gefin upp að svo stöddu. Rannsóknin snýr að fjármálamisferli og kæra verður lögð fram á næstu dögum. Gagnaöflun vegna þess máls hefur staðið yfir nú í rúman mánuð,“ segir Benjamín.

Aðspurður hvort þetta sé ekki mikið áfall fyrir þennan glaða félagsskap sem hefur sannarlega látið til sín taka og jafnvel verið nefndur sem 12. maður íslenska landsliðsins, segir Benjamín svo vissulega vera.

„Já, þetta hefur verið mjög leiðinlegt og erfitt mál og óþægilegt í alla staði. Þar sem við viljum frekar tengjast því sem jákvætt er frekar en hinu neikvæða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×