Innlent

Yfirlögregluþjónn biður svefnlitla sumarbústaðargesti afsökunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá sumarhúsabyggðinni í Tungudal í Skutulsfirði.
Frá sumarhúsabyggðinni í Tungudal í Skutulsfirði. Vísir/Bæjarins besta
„Það verður bara að viðurkennast að þetta voru mistök sem áttu sér stað,“ segir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, um atvik sem átti sér stað í sumarhúsahverfinu í Tungudal í Skutulsfirði aðfaranótt síðastliðins sunnudags.

Um var að ræða hóp fólks sem hafði mætt vestur til að vera viðstaddur útför á Ísafirði á laugardag og hafði tekið bústað Vegagerðarinnar í Tunguskógi á leigu frá fimmtudegi til sunnudags.

Á fjórða tímanum aðfaranótt síðastliðins sunnudags vaknaði fólkið við það að verið var að berja bústaðinn að utan. Það reyndist vera lögreglumaður sem tilkynnti fólkinu að það mætti ekki vera í bústaðnum samkvæmt reglum sem takmarka búsetu yfir vetrarmánuðina.

Samkvæmt heimildum Vísis vildi lögreglumaðurinn fá að vita hver hefði leigt fólkinu bústaðinn. Þegar hann fékk þær upplýsingar að fulltrúi Vegagerðarinnar hefði gert það sagði hann fólkinu að Vegagerðinni ætti að vera það ljóst að það mætti ekki vera í bústaðnum á þessum tíma árs.

Hefur reynt að koma afsökunarbeiðni á framfæri við fólkið

Um var að ræða leiðan misskilning sem er kominn til af árvekni lögreglunnar á Vestfjörðum við að vara fólk við hættu af snjóflóðum. „Við bara hörmum það og ég hef reynt að koma afsökunarbeiðni á framfæri við þetta fólk,“ segir Hlynur um málið. Var fólkið ekki beðið um að yfirgefa bústaðinn og gat því lagst aftur til hvílu.

5. apríl árið 1994 féll mjög stórt snjóflóð yfir sumarbústaðabyggðina í Tungudal þar sem fjörutíu sumarbústaðir eyðilögðust. Þar lést einn karlmaður og kona slasaðist mikið. Flóðið átti upptök í brún Breiðafells, rann yfir Seljalandsdalinn og var þar 630 metra breitt, féll síðan fram af Seljalandsmúlanum og niður yfir sumarbústaðabyggðina í Tungudal, þar sem það var 450 metra breitt. Ásamt eyðileggingunni sem varð í Tungudal varð mikið tjón á skíðasvæðinu á Seljalandsdal þar sem skíðaskáli, fjórar lyftur og ýmsir kofar og tæki sópuðust í burtu.

Tímabilið runnið upp á öðrum svæðum en ekki í Tunguskógi

Eftir snjóflóðið úrskurðaði umhverfisráðuneytið um heimild til uppbyggingar og búsetu í hverfinu en samkvæmt henni var  enduruppbygging hverfisins heimil, en búseta takmörkuð við tímabilið 16. apríl til 15. desember ár hvert. Það var því ljóst að þetta tímabil var ekki runnið upp síðastliðin laugardag en Hlynur segir misskilninginn kominn til af því að slíkt tímabil sé runnið upp á öðrum svæðum í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Má þar nefna Teigahverfið í Hnífsdal, gömlu byggðina í Súðavík og Grænagarð í Skutulsfirði, en búseta á þeim svæðum er takmörkuð við tímabilið 30. apríl til 1. nóvember ár hvert. 

„Við höfum undanfarna vetur þurft að banka upp á í fleiri húsum og athuga hvort fólk vissi ekki af þessum kvöðum og í einhverjum tilvikum hefur fólk fengið bústaði lánaða en ekki vitað af þessum kvöðum,“ segir Hlynur.

75 fórust í snjóflóðum á Vestfjörðum á tuttugustu öldinni á, þar af 34 í snjóflóðunum sem féllu á byggðirnar í Súðavík og á Flateyri árið 1995. Eftir þær hamfarir var ráðist í víðtækar aðgerðir til að reyna að koma í veg fyrir slíkan mannskaða. Byggðir hafa verið varðar með snjóflóðavarnargörðum, til dæmis á Flateyri, Ísafirði og í Bolungarvík, og þá hefur einnig verið ráðist í uppkaup húsa líkt og í Súðavík og Hnífsdal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×