Innlent

"Staðfesting á því að ég hafi gert eitthvað af viti á ferlinum”

Þórgnýr Einar Albertsson. skrifar
Frá verðlaunaafhendingunni.
Frá verðlaunaafhendingunni. vísir/ernir
„Mér líður bara afskaplega vel með þetta. Þetta kom mér alveg í opna skjöldu. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með þetta. Þetta er nokkurs konar staðfesting á því að ég hafi gert eitthvað af viti á ferlinum,” segir Guðjón Friðriksson sem hlaut í dag Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar.

„Guðjón Friðriksson hefur með verkum sínum markað eftirminnileg spor í íslenska bókmenntasögu og breytt viðmiðum okkar í ritun sagnfræði og ævisagna. Aðferð hans er oft á tíðum sú að sviðsetja atburði og með því móti tekst honum að glæða frásögnina lífi svo minnir helst á spennandi skáldverk þótt aldrei sé slakað á fræðilegum kröfum. Stíll Guðjóns er þróttmikill og fágaður í senn, ljóðrænn og skáldlegur, en umfram allt einstaklega læsilegur og heillandi. Það má telja víst að Jónas Hallgrímsson hefði kunnað að meta þannig stílbrögð,” segir í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu.

Aðspurður um hvað hvert verka hans standi upp úr á löngum ferli segir Guðjón: „Það er erfitt að segja það en ég gæti best trúað því að ævisögurnar standi upp úr. Ég skrifaði fyrst ævisögu Jónasar frá Hriflu í þremur bindum sem ég held að sé nú bara ágæt. Það var í upphafi ferilsins þannig hún náði ekki eins mikilli útbreiðslu en ég held að hún standi ágætlega undir sínu. Síðan skrifaði ég ævisögu Einars Benediktssonar í þremur bindum. Þau hlutu alveg gríðarlega góðar viðtökur og fékk ég Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir fyrsta bindið. Svo má nefna Jón [Sigurðsson] og Hannes [Hafstein]. Ætli þetta séu ekki hápunktarnir.”

Mennirnir sem Guðjón nefndi voru allir látnir er hann skrifaði bækurnar og gat hann því augljóslega ekki tekið viðtöl við þau við vinnslu ævisagnanna. „Ég reyndi að komast eins nálægt þeim eins og ég mögulega gat með því að kafa ofan í þeirra skrif og annarra um þá. Þetta eru stórar persónur í Íslandssögunni og sumar þeirra, eins og Jón, eru hafnar til skýjanna og gerðar að hálfgerðum goðum. Mig langaði að færa hann nær fólki og gera mannlegri,” segir Guðjón.

Guðjón lenti þó í dálitlum vandræðum við skrifin um Jón forseta. „Hann var var um sig og virðist margt benda til að hann hafi reynt að eyðileggja gögn um sig. Hann var vel meðvitaður um stöðu sína í samfélaginu og skyldi ekki eftir neitt vont sem hefði varpað skugga á dýrlingsmyndina,” segir Guðjón.

Um manninn sem verðlaunin eru kennd við segir Guðjón: „Ég er ákaflega hrifinn af honum og hef alltaf verið. Hann kemur alveg með ný blæbrigði í íslenskt tungumál með sínum kvæðum og sögum og fer að sjá ýmsa hluti sem voru mjög hversdagslegir í augum samtíðarmanna á annan hátt. Kannski því hann bjó í Kaupmannahöfn. Þá fór hann að sjá ýmislegt í náttúrunni og yrkja um það, eitthvað sem heimamönnum þótti mörgum sjálfsagt, til dæmis fífilbrekkur, fífusund og þess háttar,” segir Guðjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×