Innlent

Landsnet lagði Landvernd fyrir dómi

Snærós Sindradóttir skrifar
Landvernd vill að athugasemdir um lagningu raflína verði teknar til greina í áætlanagerð.
Landvernd vill að athugasemdir um lagningu raflína verði teknar til greina í áætlanagerð. Vísir/Vilhelm
Landvernd þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Landsneti hf. í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. Kröfur Landverndar sneru að því að viðurkennt yrði að áætlun Landsnets um uppbyggingu flutningskerfis raforku yrði úrskurðuð ólögmæt.

Þá vildi Landvernd fá viðurkennt að við gerð áætlana um uppbyggingu flutningskerfa yrði að hafa til hliðsjónar athugasemdir sem hefðu borist við slíka áætlun og umhverfisskýrslu en jafnframt meta lagningu jarðstrengs sem valkost.

Landsnet hf. lagði fram frávísunarkröfu fyrr í sumar sem ekki var tekin til greina. Því fagnar Landvernd en þetta er í fyrsta sinn, að því er komist er næst, sem aðild umhverfissamtaka er viðurkennd að máli sem þessu.

Magnús Óskarsson, lögmaður Landverndar, segir að þrátt fyrir að málið hafi tapast nú hafi viðurkenning á aðild umhverfissamtakanna að málinu verið áfangasigur. „Umbjóðandi minn, Landvernd, fagnar því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi viðurkennt rétt umhverfisverndarsamtaka til að fá mál umhverfisverndarsamtaka tekin fyrir efnislega fyrir dómi,“ segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×