Innlent

Skora á þingmenn að setja lög um rangar sakargiftir

Birgir Olgeirsson skrifar
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Vísir/Vilhelm
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skorar á þingmenn að setja lög sem miðast að því að kærur fyrir rangar sakargiftir geti ekki verið lagðar fram fyrr en kynferðisbrotamálin sjálf eru leidd til lykta í réttarvörslukerfinu.

Þórdís Elva birtir þessa áskorun á Facebook-síðu sinni en fjöldi fólks hefur tekið undir þessa áskorun. Þórdís segir uggvænlega þróun eiga sér stað í samfélaginu sem felst í því að þeir sem leggja fram kæru vegna kynferðisbrots eiga yfir höfði sér að vera kærðir fyrir rangar sakargiftir. Segir Þórdís Elva það hafa enn frekari fælingarmátt fyrir brotaþola.

„Augljós tilraun til þess að afvegaleiða rannsókn“

„Starfandi lögmenn hafa bent á að þessi aðgerð sé augljós tilraun til þess að afvegaleiða rannsókn kynferðisbrotamála og draga úr þrótti brotaþola,“ skrifar Þórdís Elva.

Hún segir ljóst að mannafli lögreglu sé ekki ótæmandi auðlind og rannsókn á röngum sakargiftum sé til þess fallin að taka tíma og mannskap frá rannsóknum kynferðisbrotamála.

Segir rangar sakargiftir óverulegt vandamál

„Ítrekaðar rannsóknir sýna að rangar sakargiftir í þessum málaflokki er óverulegt vandamál en kynferðisofbeldi er hins vegar útbreitt samfélagsmein sem snertir hverja einustu fjölskyldu í landinu,“ skrifar Þórdís Elva sem bendir þingmönnum á að það sé nógu erfitt nú þegar að kæra kynferðisbrot.

„Kæru þingmenn, það er nógu erfitt að kæra kynferðisbrot nú þegar. Meirihluti slíkra mála eru felld niður og allt of fáir treysta sér til þess að leggja erfiðið á sig. Þess vegna er hér með skorað á ykkur að setja lög þess efnis að kærur fyrir rangar sakargiftir geti ekki verið lagðar fram fyrr en kynferðisbrotamálin sjálf eru leidd til lykta í réttarvörslukerfinu.“

Þingmennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Ásta Guðrún Helgadóttir hafa „lækað“ þessa færslu Þórdísar Elvu.

Brynjar Níelsson ekki hrifinn

Þingmaðurinn Brynjar Níelsson spyr hins vegar hvaða „endemis vitleysa“ þetta sé? „Eðli málsins samkvæmt er það rannsakað í hverri kæru um kynferðisbrot, eins og um önnur brot, hvort um geti verið að ræða rangar sakargiftir. Skiptir þá engu hvort formleg kæra hafi komið fram um slíkt eður ei. Svo er algerlega banalt að taka þann rétt af fólki að kæra rangar sakargiftir frekar en önnur hegningarlagabrot, sem þungar refsingar liggja við. Það samræmist alls ekki reglum réttarríkisins,“ skrifar Brynjar í athugasemd við færslu Þórdísar Elvu.

Segist Brynjar trúa því tæplega að margir þingmenn muni standa að því að leggja fram slíkt frumvarp.

Þórdís bendir þó Brynjari á að það sé ekki verið að taka réttinn af neinum um að kæra fyrir rangar sakargiftir. Ætlunin sé að leyfa málum fram að ganga áður en lögð er fram kæra um rangar sakargiftir.

Kæru vinir og vinkonur sem farið með löggjafarvald okkar Íslendinga,Ykkar bíður knýjandi verkefni. Yfirgnæfandi...

Posted by Þórdís Elva Þorvaldsdóttir on Wednesday, November 18, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×