Viðskipti innlent

Tekjur hinna tekjuhæstu aukast mest

Ingvar Haraldsson skrifar
Hve miklar tekjur einstaklingar, hjón eða samskattað sambýlisfólk, þarf að hafa á ári eftir að hafa greitt skatt til að vera meðal 1%, 10%, 30%, 50% og 70% tekjuhæstu Íslendinganna.
Hve miklar tekjur einstaklingar, hjón eða samskattað sambýlisfólk, þarf að hafa á ári eftir að hafa greitt skatt til að vera meðal 1%, 10%, 30%, 50% og 70% tekjuhæstu Íslendinganna. fréttablaðið
Á síðasta ári jukust ráðstöfunartekjur tekjuhæstu Íslendinganna mest allra, en það eru þær tekjur sem eftir standa þegar búið er að greiða skatta.

Til að vera meðal eins prósents tekjuhæstu Íslendinganna þurfa ráðstöfunartekjur framteljenda, það er hjóna, einstaklinga eða samskattaðs sambúðarfólks að nema 20,6 milljónum króna á ári sem er aukning um 9,6 prósent milli ára. Það er mesta hækkun allra tekjuflokka milli ára. Næstmest varð hækkunin meðal tíu prósenta tekjuhæstu framteljendanna sem hækkuðu um 6,8 prósent og þurfa árstekjur að nema 10,1 milljón króna.

Ráðstöfunartekjur tekjuhæstu tíu prósentanna jukust um 11,6 prósent milli ára en annarra tekjuhópa minna eða um fimm til sex prósent ef undanskilinn er allra lægsti tekjuhópurinn, sem að meðaltali hefur 320 þúsund krónur í árslaun og vinnur því ekki nema mjög lítinn hluta úr ári.

Sé rýnt í hvað er að baki tekjuaukningunni þá munar mest um aukningu fjármagnstekna hjá tekjuhæstu tíu prósentunum en þær aukast um 31 prósent milli ára en dragast saman hjá öllum öðrum. Atvinnutekjur þessa hóps aukast þó minna en annarra eða um fimm prósent samanborið við 8-12 prósent aukningu meðal hinna tekjulægri.

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor segir tekjur hinna tekjuhæstu oft fylgja hagsveiflunni.
Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, telur að þróunin þurfi ekki að koma á óvart. Hinir tekjuhæstu, sérstaklega atvinnurekendur, hagnist oft hraðar en aðrir í uppsveiflu. „Þeir fá tekjurnar af fyrirtækinu þegar búið er að borga öllum öðrum og þegar hagsveiflan fer að fara upp á við þá er það rekstrarafgangurinn sem eykst hratt og þess vegna ekki óeðlilegt að tekjur þeirra, sem eru með svoleiðis tekjur, vaxi hraðar,“ segir Þórólfur.

Þá bendir Þórólfur á að aðgerðir stjórnvalda hafi einnig áhrif á tekjudreifingu. „Í kjölfar hrunsins voru álögur á þá tekjumeiri auknar mjög mikið og núverandi ríkisstjórn hefur svona verið að draga sumt af því til baka.

Laun þeirra tekjulægstu og bætur og ýmislegt þess háttar hækkar hægar,“ bendir hagfræðiprófessorinn á. Hins vegar fari þróunin oft í hina áttina í niðursveiflu. Tekjur þeirra ríkustu, sem oft séu að stórum hluta fjáramagnstekjur, dragist mun hraðar saman en tekjur launafólks.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×