Innlent

Eldfjallarannsóknir á Íslandi nýtast öllum heiminum

Heimir Már Pétursson skrifar
Ítalskir jarðvísindamenn binda vonir við að evrópskar eldfjallarannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi með tæplega 900 milljón króna styrk frá Evrópusambandinu undanfarin þrjú ár, nýtist til að hægt verði að spá fyrir um eldgos mun fyrr en nú er mögulegt. Flytja þarf hundruð þúsunda manna á brott frá Napoli gjósi sögufræg eldfjöll í nágrenni borgarinnar.

Mauro Rosi jarðfræðingur og starfsmaður Alamannavarna héraðsins segir að FutureVolc verkefnið sem jarðvísindadeild Háskóla Íslands og Veðurstofa Íslands hafa leitt á undanförnum þremur árum í samvinnu við jarðvísindamenn í tíu ríkjum Evrópu, sé mjög mikilvægt í þróun líkana á hegðun eldfjalla sem geti nýst vísindamönnum við að spá fyrir um eldgos. En vísindamenn frá tíu löndum Evrópu kynntu framvindu FutureVolc verkefnisins á fundi í Hveragerði í gær.

Rosi segir Ísland góða tilraunastöð vegna mikillar virkni eldfjalla hér.

„Við þyrftum að geta flutt hundruð þúsunda manna frá Napoli áður en eldgos hæfist,“ segir Rosi. En borgin liggur utan í hlíðum Vesuvius.

Í dag geta íslenskir jaðrvísindamenn varað við eldgosi allt frá hálftíma upp í nokkrar klukkustundir áður en það hefst. En það dugar ekki íbúum Napoli borgar sem þyrftu nokkra daga fyrirvara. Rosi segir því mjög mikilvægt að vísindamenn um allan heim, þar með á Íslandi,  vinni saman að því að finna aðferðir til að spá fyrir um eldgos.

Ef þú vissir á þessari stundu að eldgos hæfist eftir hálftíma, hvað tæki þá lanngan tíma að rýma Napoli?

„Það væri algerlega ómögulegt á svo skömmum tíma. Það er ástæðan fyrir því að við þurfum að vita af eldgosi með góðum fyrirvara. Skipulag almannavarna miðar við að brottflutningur fólks hefjist um leið og viðvörun sem byggir á þekkingu berst,“ segir Rosi.

Ef eldgos hæfist með skömmum fyrirvara við Napoli, sem vel gæti gerst, væri líf hundruð þúsunda manna í hættu.

„Við getum vonandi unnið að þessum málum sameiginlega í framtíðinni með því að skiptast á upplýsingum og prófunum, meðal annars héðan frá Íslandi, sem geta átt við okkar eldfjöll. Vegna þess að eldgos eru mjög tilviljunarkennd þegar horft er til eins ríkis en þau eru mjög algeng á heimsvísu. Þannig að það er mjög mikilvægt að tengja saman alþjóðavísindasamfélagið í þessum efnum,“ segir Mauro Rosi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×