Innlent

Aðkoman var skelfileg: Íbúð ungs pars hreinsuð og bílnum stolið líka

Jakob Bjarnar skrifar
Íbúð Ásu og Guðna var í rúst, allt tekið þar á meðal tölva sem geymir allt sem snýr að háskólanámi Ásu og skírnargjafir ungabarns þeirra.
Íbúð Ásu og Guðna var í rúst, allt tekið þar á meðal tölva sem geymir allt sem snýr að háskólanámi Ásu og skírnargjafir ungabarns þeirra.
„Þetta er eins óskemmtilegt og það verður,“ segir Guðni G. Kristjánsson.

Innbrotsþjófar gerðu sér lítið fyrir og bókstaflega hreinsuðu íbúð hans og kærustu hans, Ásu Þorsteinsdóttur í nótt. Aðkoman var skelfileg. Allt á rúi og stúi og allt tekið sem var einhvers virði: Sjónvarp, heimabíó og tölvur. Og eins og það sé ekki nóg, bíllinn þeirra var tekin líka: Brúnn Hyundai i30 með skráningarnúmerið YRP-22. Lesendur eru beðnir um að hafa hjá sér augun verði þeir varir við bílinn eða þýfið.

Skírnargjafirnar allar teknar

Guðni og Ása voru nýbúin að láta skíra dóttur sína og allar skírnargjafirnar höfðu verið teknar. Guðni var staddur fyrir norðan þegar Vísir náði í hann, var við rjúpnaveiðar þegar honum bárust þessi skelfilegu tíðindi. Hann er nú á heimleið.

„Mesta tjónið er líklega í tölvunni hennar Ásu sem er 15“ MacBook pro-tölva. Þar er allt fjögurra ára háskólanám hennar. Hún er að klára og er byrjuð á Bs-ritgerðinni sinni í ferðamálafræði í Háskóla Íslands. Þar eru ritgerðir, glósur og allt námið,“ segir Guðni.

Íbúðin í rúst

Guðni og Ása búa í Fossvoginum og svo virðist sem innbrotið hafi verið skipulagt. Þannig var að Ása fór út á lífið með vinkonum sínum, í fyrsta skipti eftir að hún eignaðist barnið sem var í júní, og þegar hún kom heim aftur, um klukkan hálf fimm voru innbrotsþjófarnir búnir að læsa hurðinni að innanverðu með keðju. Ása þurfti að brjótast inn til sín. Lögreglan var kvödd á staðinn og hún segir að fyrst þeir stálu bílnum líka séu meiri líkur á því að innbrotsþjófarnir náist.

Barnaföt út um allt

„Þetta er alveg ömurlegt. Þeir hafa verið þarna í langan tíma. Það var búið að opna matarílát og barnafötin voru þarna út um allt. Íbúðin er í rúst. Og dýr föt farin. Það má kannski heita heppni að ég var fyrir norðan með mitt dót, tölvu og annað. Það væri farið líka,“ segir Guðni.

Guðni og Ása eru bæði á þrítugsaldrinum. Þau fluttu í íbúð sína fyrir þremur mánuðum og segir Guðni að þau eigi eftir að fara nánar í gegnum búslóðina, hvað sé horfið. Það er verkefni sem blasir við þegar Guðni kemur heim úr veiðiferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×