Skoðun

Lýðræði! Hvað er nú það?

Örn Sigurðsson skrifar
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins 2015 verður haldinn 23.-25. október nk. Frá stofnun lýðveldis 1944 hefur flokkurinn átt aðild að ríkisstjórnum í 680 mánuði af 850 eða í um 80% tímabilsins og átt forsætisráðherra í 490 mánuði eða í um 57% lýðveldistímans. Á sama tímabili hefur flokkurinn stjórnað Reykjavíkurborg í 52 af 71 ári eða um 73% tímans.

Engum þarf því að dyljast að miklu máli skiptir fyrir íslenskt samfélag að þetta áhrifamikla valdabákn sé lýðræðislega uppbyggt. Og Sjálfstæðisflokkurinn virðist einmitt vera sérlega lýð­ræðis­legur stjórnmálaflokkur, a.m.k. fljótt á litið. Landsfundur er haldinn á u.þ.b. tveggja ára fresti. Hann er æðsta valdastofnun flokksins og mótar stefnu hans. Ákvarðanir hans eru bindandi fyrir ríkisstjórnir, þingmenn og borgarfulltrúa flokksins.

Í skipulagsreglum flokksins segir m.a. í 9. gr. um val landsfundarfulltrúa: „Landsfundur skal í aðalatriðum skipaður í samræmi við tölu sjálfstæðiskjósenda í kjördæmum landsins“… þannig að hvert kjördæmi fái þrjá fulltrúa fyrir hverja 200 kjósendur flokksins samkvæmt meðaltali síðustu tvennra alþingiskosninga og að hvert sjálfstæðisfélag fái þrjá fulltrúa?…

Þessar skipulagsreglur ættu að tryggja lýðræði og jöfnuð í Sjálfstæðisflokknum en landsbyggðarmenn hafa fundið gott ráð við þessu því á meðan sjálfstæðisfélög á höfuðborgarsvæðinu eru einungis 39 eru félögin í landsbyggðarkjördæmunum þremur orðin samtals 127. Þannig hefur landsbyggðin um 25 landsfundarfulltrúa umfram höfuðborgarsvæðið áður en leiðrétt er fyrir auknum fjölda meðlima í fjölmennari félögum; einn fulltrúi bætist jú við fyrir hverja 200 fullgilda félaga.

Að lokinni leiðréttingu virðast landsbyggðarkjördæmin enn hafa hreinan meirihluta við stefnumótun á landsfundum flokksins. Að auki er áratuga reynsla fyrir því að landsfundarfulltrúar af höfuðborgarsvæðinu sækja landsfundi mun síður en landsbyggðarfulltrúar, e.t.v. vegna þessa kerfisbundna áhrifaleysis. Þannig má í raun sjá að landsbyggðarsjónarmið eru allsráðandi við alla stefnumótun Sjálfstæðisflokksins.

Kerfisskekkja

Misvægi atkvæða í alþingiskosningum nemur um 100% skv. gildandi lögum á árinu 2015 en á 20. öld nam það allt að 300%. – Misvægi í skipun landsfundarfulltrúa xD á milli höfuðborgarsvæðis (RN, RS, SV) og landsbyggðar (NV, NA, S) virðist á sama tíma nema um 100%. Að baki hverjum fulltrúa höfuðborgarinnar er 51 kjósandi en 26 að baki hverjum landsbyggðarfulltrúa.

Eins og áður sagði eru ákvarðanir landsfunda xD bindandi fyrir ríkisstjórnir, þingmenn og borgarfulltrúa flokksins og skýrir þetta að hluta a.m.k. verulega undarlega stefnu Sjálfstæðisflokksins í mörgum mikilvægum málum. Á landsfundi flokksins skömmu eftir Hrun var t.d. felld með naumindum tillaga um að auka enn á misvægi atkvæða á milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Samverkandi neikvæð áhrif tvíþætts misvægis í aðgangi almennings að valdinu, sem stjórnar lífi og örlögum landsmanna eru líklega mun meiri en kjósendur Sjálfstæðisflokksins og aðrir landsmenn gera sér grein fyrir, einkum kjósendur flokksins á höfuðborgarsvæðinu, þeir ættu e.t.v. að hugsa sinn gang.

Hvort önnur hefðbundin landsmálaframboð („fjórflokkurinn“) eru haldin ámóta kerfisskekkju og Sjálfstæðisflokkur er óvíst. En að fenginni langri reynslu er vitað að vegna misvægis atkvæða í kosningum til Alþingis eru öll landsmálaframboð sjálfkrafa hallari undir lands­byggðar­sjónarmið en borgarsjónarmið þegar slík sjónarmið skarast.

Á lýðveldistímanum hafa kjörnir fulltrúar á Alþingi misbeitt illa fengnu valdi misvægisins ótæpilega gegn borgarsamfélaginu til mikils tjóns fyrir alla landsmenn. Og engu er líkara en á sama tíma hafi landsbyggðin sjálf farið sér að voða ein og óstudd þrátt fyrir að „njóta ávaxtanna“ af misvægi atkvæða, af flugvelli í Vatnsmýri, af kerfisskekkju í Sjálfstæðisflokki, af óheftu kjördæmapoti o.s.frv.




Skoðun

Sjá meira


×