Skoðun

Cox og Guð

Valgarður Guðjónsson skrifar
Þórir Stephensen ritar grein í Fréttablaðið 27. október þar sem hann leggur út af því að prófessor Brian Cox hafi sagt að það sé barnalegt að afneita tilvist guðs.

Nú er þetta auðvitað lýsandi dæmi um rökleysuna „tilvitnun í vald“ („Appeal to authority“ / „Ad Verecundiam“) þar sem reynt er að færa rök fyrir einhverju með því að vitna í einhvern einstakling sem þykir merkilegur. Þetta er rökleysa vegna þess að skoðun einhvers er aldrei sönnun fyrir neinu með eða á móti. Rökleysan er svo enn verri þegar vísað er í einhvern sem sérfræðing á allt öðru sviði en hann hefur sérstaka þekkingu á. Skoðun Cox á tilvist guðs, til eða frá, er ekkert merkilegri en skoðun mín eða Þóris. Enginn okkar hefur nokkra minnstu sönnun á tilvist, eða ekki tilvist, guðlegrar veru. Þannig skiptir skoðun Cox engu meira máli en skoðun mín eða Þóris. Og er ekki tilefni til að skrifa blaðagreinar.

Það er hins vegar fín hugmynd að vinna heimavinnuna sína áður en rokið er upp til handa og fóta að skrifa blaðagreinar.

Nóg af tilvitnunum

Ef Þórir leggur svona mikið upp úr skoðunum Cox og telur fullyrðingar hans eitthvað til að taka bókstaflega og til fyrirmyndar, þá tekur Þórir kannski líka mark á Cox í fjölmörgum viðtölum, þáttum og greinum þar sem hann segir að það séu nú engin æðri máttarvöld þarna uppi, talar um mikil­vægi aðferða vísindanna í stað trúar og fordæmir yfirgang í nafni trúar­bragða. Það er nóg að gúgla „Brian Cox God“. Nóg er af tilvitnunum og auðvitað YouTube-klippum, þar sem Cox kynnir sínar skoðanir afdráttarlaust og milliliðalaust.

Ég veit reyndar að dagblaðið Tele­graph hafði eitthvað þessu líkt eftir honum, án þess að ég þekki samhengið. En það er auðvitað langur vegur frá því að segjast ekki afneita einhverju yfir í það að segja að eitthvað sé til. Ég er til dæmis trúlaus, hef enga trú á yfirnáttúrulegum verum, hvað þá þeim sem trúarbrögðin hafa verið að reyna að skilgreina. En ég fullyrði auðvitað ekkert um að það geti ekki verið til. Ég afneita því til dæmis ekki að Loch Ness-skrímslið sé til. En mér dettur samt ekki í hug að það sé eitthvert skrímsli í Loch Ness.

Það voru nefnilega fréttir um að hann myndi hugsanlega leika guð í sýningu Monty Python. Ætli hann hafi ekki bara verið að tala um hlutverkið sitt!




Skoðun

Sjá meira


×