Innlent

Hæstiréttur staðfestir fjársvikadóm vegna tveggja kertastjaka

Birgir Olgeirsson skrifar
Konan blekkti afgreiðslumanninn með því að líma aðra verðmiða á kertastjakana.
Konan blekkti afgreiðslumanninn með því að líma aðra verðmiða á kertastjakana. Vísir/Getty
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm yfir konu sem var sakfelld fyrir fjársvik í Héraðsdómi Reykjaness. Konan var ákærð fyrir fjársvik og þjófnað með því að hafa stolið tveimur sápum að verðmæti 1.996 króna og blekkt afgreiðslumann með því að greiða 954 krónur fyrir tvo kertastjaka sem kostuðu í raun 4.395 krónur. Hafði konan límt 954 króna verðmiða á kertastjakana til að villa um fyrir afgreiðslumanninum. Átti þetta sér stað í nóvember árið 2013.

Líkt og kom fram áður staðfesti Hæstiréttur dóminn yfir konunni er varðar fjársvik en sýknaði hana af ákæru um þjófnað á sápustykkjunum tveimur. Ástæðan er sú að dómurinn fyrir þjófnaðinn hefði aðeins verið studdur með frásögn eins vitnis gegn staðfastri neitun konunnar. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að lögreglan hefði ekki gengið úr skugga um hvort konan hefði keypt sápurnar í annarri verslun eins og hún hefði haldið fram.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að konan hafði áður verið dæmd til greiðslu sektar fyrir þjófnað og hafði það brot ítrekunaráhrif samkvæmt almennum hegningarlögum. Var hún því dæmd til þrjátíu daga fangelsisvistar en fullnustu refsingarinnar skal frestað um tvö ár haldi hún skilorði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×