Innlent

Senda könnunarfar til tunglsins til að undirbúa mögulegar ferðir manna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Luna 27 mun lenda á myrku hlið tunglsins.
Luna 27 mun lenda á myrku hlið tunglsins. vísir/vilhelm
Geimferðastofnanir Evrópu og Rússlands hafa samþykkt senda könnunarfar á ókannað svæði á suðurpól tunglsins. Að sögn stofnananna verður verkefnið liður í að kanna hvort möguleiki verði á því síðar meir að senda fólk aftur til fylgihnattarins og hvort hægt verði að setjast þar að síðar meir. Þetta kemur fram á BBC.

Geimförin munu kanna hvort á staðnum sé að finna einhvern vott af vatni auk efna sem hægt sé að nýta til að framleiða eldsneyti og súrefni. Geimfarið kallast Luna 27 og stefnt er að því að það leggi í hann innan fimm ára.

„Við verðum að fara til tunglsins. 21. öldin er öldin sem siðmenning manna mun ná til tunglsins og okkar þjóð verður að taka þátt í þeirri vegferð,“ segir Igor Mitrofanov hjá stofnun geimrannsókna í Moskvu. Rússar stefndu til tunglsins um miðbik síðustu aldar en lutu í gras fyrir Bandaríkjamönnum. „Nú förum við til tunglsins en gerum það í samstarfi við aðrar þjóðir.“

Luna 27 mun lenda við jaðar suðurpóls mánans á einum þeirra staða þar sem ávallt er kalt. Hitastig þar er með því lægsta sem þekkist í sólkerfinu. Vonast er til að þar megi finna efni sem hafa verið varin fyrir hita sólarinnar og hægt sé að nýta af geimförum sem kunna að kanna tunglið síðar meir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×