Enski boltinn

Mourinho: Þetta þýðir að leikmenn megi hefna sín

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sá portúgalski er ósáttur.
Sá portúgalski er ósáttur. Vísir/Getty
Portúgalski knattspyrnustjóri Chelsea, Jose Mourinho, segir að ákvörðun gærdagsins hjá enska knattspyrnusambandinu gefi þau skilaboð út að það sé í lagi að leikmenn hefni sín þegar brotið verður á þeim.

Gabriel, miðvörður Arsenal var á laugardaginn sendur í sturtu eftir að hafa sparkað í Diego Costa, framherja Chelsea í leik liðanna en stuttu áður hafði Costa slegið Laurent Koscielny og klórað Gabriel og fengið aðeins gult spjald að launum.

Enska knattspyrnusambandið staðfesti í gær að ákvörðun hefði verið tekin um að setja Costa í þriggja leikja bann og þurrka út leikbann Gabriel en miðvörðurinn gæti þó enn verið sendur í bann fyrir aðild sína að deilum hans og Costa.

Mourinho hefur áhyggjur af því að þessi ákvörðun knattspyrnusambandsins gefi frá sér vitlaus skilaboð.

„Nú vitum við það að það má hefna sín á leikmönnum, það er komið á hreint. Ég vill ekki blanda tilfinningum mínum inn í þetta því þá verð ég dæmdur í leikbann og félagið má ekki við því,“ sagði Mourinho og bætti við:

„Við getum tekist á við meiðsli en þetta leikbann tekur á tilfinningar okkar hjá Chelsea, leikmennirnir eru særðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×