Enski boltinn

Van Gaal: Stoltur að vera á toppnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal.
Louis van Gaal. vísir/getty
Manchester United komst á toppinn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina á kostnað samborgara sinna í Manchester City.

City-liðið, sem vann fyrstu fimm leiki sína í deildinni án þess að fá á sig mark, tapaði öðrum leiknum í röð um helgina þegar það lá í valnum gegn Tottenham á útivelli.

Manchester United vann aftur á móti annan leikinn í röð, en liðið lagði Sunderland, 3-0, á heimavelli með mörkum Memphis Depay, Wayne Rooney og Juan Mata.

„Ég er auðvitað stoltur. Ég sagði við öryggisvörðinn okkar: „Þú ert nú öryggisvörður liðsins sem er í efsta sæti deildarinnar og það breytir öllu.“ Hann er stoltur og ég er stoltur,“ sagði Van Gaal.

United á erfiða leiki framundan, en liðið mætir Arsenal í stórleik næstu umferðar á sunnudaginn og á svo leiki gegn Everton og Manchester City eftir landsleikafríið.

„Við erum með gott lið en við getum bæði unnið og tapað. Maður þarf auðvitað smá heppni, en það sem skiptir máli er að það er betra jafnvægi í liðinu núna en í fyrra,“ sagði Louis van Gaal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×