Innlent

Prófsvindl níu stúdentsefna: Boð rektors MS var nemendunum í hag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nemendurnir greiddu tíu þúsund krónur fyrir að fá að taka þýskuprófið aftur.
Nemendurnir greiddu tíu þúsund krónur fyrir að fá að taka þýskuprófið aftur. Vísir/stefán
Menntamálaráðuneytið telur ekkert benda til þess að stjórnendur Menntaskólans við Sund hafi brotið á nemendum sem staðnir voru að svindli á stúdentsprófinu í þýsku í maí síðastliðnum. Nemendurnir níu voru ósáttir með meðferð þá sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir og kærðu ákvörðun MS um ógildingu á próflausninni þeirra til ráðuneytisins.

Nemendunum var öllum boðið að þreyta prófið að nýju og stóðust þeir allir prófið. Skólastjórnendum og nemendunum hefur verið tilkynnt bréfleiðis um niðurstöðu ráðuneytsins. Vísir hefur bréfið, sem er opinbert gagn, undir höndum. Telur ráðuneytið að boð rektors til nemenda um að þreyta aukapróf hafi verið ívilnandi fyrir nemendurna enda skólinn ekki skyldugur til þess.

Einn sagðist hafa strokað út upplýsingarnar

Nemendurnir voru staðnir að verki í prófinu sjálfu en þá uppgötvaðist að þeir höfðu óheimilar upplýsingar í orðabókum sem hafa mátti meðferðis í prófið. Allir aðilar utan eins nemenda voru að mestu leyti sammála um aðdraganda ákvörðunar skólans.

Sá sagðist hafa strokað út upplýsingarnar áður en hann mætti í prófið. Hins vegar var ágreiningur hjá nemendum og skólastjórnendum um málsmeðferðina sem málið fékk í kjölfarið. Töldu nemendurnir að málið samrýmdist ekki ekki reglum stjórnsýsluréttar.

Í kjölfar þess að nemendurnir voru staðnir að verki í prófi þann 6. maí barst þeim bréf þann 8. maí. Þar var þeim tilkynnt að úrlausnirnar teldust ekki matshæfar. Í sama bréfi bauð skólinn nemendunum að velja á milli þess að taka sérstakt aukapróf gegn gjaldi eða að taka próf í þýsku með útskriftarárgangi 2016. 

Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund.Vísir/Stefán
Leggja ekki mat á ákvörðun um ómatshæfar úrlausnir

Nemendurnir voru ósáttir við ákvörðun skólayfirvalda um að úrlausnirnar teldust ekki matshæfar. Kærðu þeir þá ákvörðun. Í áliti ráðuneytisins seigr að samkvæmt lögum eigi kennari, undir umsjón skólameistara, að fara með almennt námsmat í þeirri grein sem hann kennir. Það falli því utan valdsviðs ráðuneytisins að fjalla efnislega um námsmatið í umræddu prófi. 

Ákvörðun skólans um að úrlausnirnar voru ómatshæfar verði því ekki skotið til ráðuneytisins og hefði því borið að vísa þeim hluta kæranna frá afgreiðslu í ráðuneytinu eins og segir í áliti ráðuneytisins. 

Fengu ekki að útskrifast samtímis

Aukaprófið sem nemendum bauðst að þreyta fór fram þann 3. júní eða að lokinni útskriftarathöfn við skólann. Kærðu nemendur þá ákvörðun skólans í ljósi þess hve íþyngjandi sú ákvörðun væri fyrir kærendur. Að þurfa að horfa upp á samnemendur sína útskrifast og geta ekki tekið þátt í stóra deginum.

Eins og áður kemur fram náði allir nemendur prófinu og voru því engir lögvarðir hagsmunir af því að ákvarðanir yrðu felldar úr gildi. Hins vegar taldi ráðuneytið tilefni til þess að fjalla um málsmeðferð skólans við ákvörðun um boð að þreyta aukapróf eða próf vorið 2016.

Nemendurnir stóðust allir endurtökuprófið í þýsku.VÍSIR/ERNIR
Greiddu tíu þúsund krónur hvert

Ráðuneytið kallaði eftir upplýsingum frá skólanum um greinarmun á reglum er varða rétt til endurupptökuprófs eftir því hvort lausnir væru ófullnægjandi eða ómatshæfar. Þá var óskað eftir því að gerð yrði grein fyrir reglum skólans í þessum efnum.

Skólinn upplýsti að nemendum hefði verið tilkynnt í bréfinu 8. maí að úrlausnirnar væru ekki matshæfar. Þá voru þeim boðnir tveir kostir ef þeir hefðu á annað borð áhuga á að ljúka stúdentsprófi frá MS. Allir þáðu boð rektors um aukapróf og greiddi hver nemandi 10 þúsund krónur fyrir að taka prófið.

Skólinn metur sem svo að boðið hafi verið upp á viðbótarþjónustu fyrir umrædda nemendur sem væri ekki skylt að veita samkvæmt lögum, aðalnámskrá, skólanámskrá eða skólareglum. Aukaprófin fólu í sér umtalsverðan kostnað fyrir skólann en greiðsla nemenda var aðeins hluti þess kostnaðar.  Ákvörðunin hefði verið ívilnandi fyrir nemendur.

Upplýst um rétt sinn

Í svari skólans kemur enn fremur fram að nemendur hafi fengið að koma skoðunum sínum á framfæri á fundi. Þar hafi þeir einnig verið upplýstir um skólareglur, feril máls og hvert þeir gætu snúið sér ef þeir væru ósáttir við málsmeðferðina, sem þeir svo gerðu.

Öll málskjöl hafi verið könnuð og ferill málanna í heild skoðaður áður en niðurstöður voru dregnar saman og ákvörðun tekin. Ákvörðun hafi ekki verið tekin fyrr en málin hafi verið að fullu upplýst skv. 10. grein stjórnsýslulaga. Þá kemur fram í greinargerð skólans að öll málin hafi fengið sambærilega málsmeðferð auk þess sem ákvarðanir hafi verið í samræmi við meðalhófsreglu. Það megi sjá af því að öllum gafst kostur á því að ljúka námi á árinu 2015 og því gert kleyft að hefja háskólanám um haustið. 

Vísaði skólinn til þeirrar almennu meginreglu að ef próftaki hefur rangt við á prófi er úrlausn hans almennt metin ógild.

Nemendur eiga öll þess kost að hefja háskólanám með stúdentsprófið.Vísir/ernir
Tekjutap í sumarstörfum

Nemendurnir töldu tímasetningu aukaprófsins íþyngjandi bæði vegna þess að þeim hafi ekki gefist kostur á að útskrifast með samnemendum sínum og líka þar sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir tekjutapi í sumarstörfum.  

Töldu nemendurnir skólann ekki hafa gætt að jafnræðisreglu 11. greinar stjórnsýslulag þar sem þeir sögðust þekkja til sambærilegra mála í öðrum framhaldsskólum þar sem málin hafi verið leyst á farsælli hátt þar sem nemendur fengju að útskrifast með samnemendum sínum.

Ráðuneytið telur óumdeilt að skólinn átti að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga við ákvörðunartöku sína enda varðaði hún mikilvæg réttindi nemenda.

Ekki brotið gegn lögum og reglum

Í skólanámskrá og reglum MS, sem voru síðast uppfærðar vorið 2014, er kveðið á um endurtökupróf fyrir þá sem ná 5,0 í aðaleinkunn en ekki staðið lágmarkskröfu um lokaeinkunn (4,0) í einu eða tveimur fögum. Þau séu almennt haldin mánaðarmótin maí/júní.

Hins vegar komi ekkert fram í aðalnámskrá framhaldsskóla eða framhaldsskólalögum um skyldu skóla tl að halda sérstök aukapróf fyrir þá nemendur sem hafa skilað ógildum eða ómatshæfum prófúrlausnum. Því kemst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að ákvörðun skólayfirvalda hafi í raun verið nemendum í hag og skólinn því ekki brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við ákvörðun sína.

Sömuleiðis telur ráðuneytið ekkert hafa komið fram í gögnum málsins sem bendi til þess að skólinn hafi vikið frá jafnræðisreglu stjórnsýslulaga í málum nemendanna níu. Í niðurlagi álits ráðuneytis er Menntaskólinn við Sund hvattur til að útfæra skólareglur á þann hátt að enginn vafi ríki um viðurlög við því þegar nemendur eru staðnir að svindli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×