Innlent

Ritstjóri hefur mátt þola grófa áreitni: „Óþolandi að menn komist upp með að haga sér svona“

Birgir Olgeirsson skrifar
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar.
„Örugglega, hvað ætlar hann að gera, halda áfram að senda mér einhverja hótunarpósta? Hann gerir það þá bara,“ segir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, spurð hvort hún vonist eftir því að maðurinn sem hefur áreitt hana frá árinu 2013 hætti því eftir að hún birti pistil í dag á vef Stundarinnar um hegðun hans.

Hún segir að svo virðist sem að rekja megi áreitni mannsins til fréttar sem karlkyns kollegi hennar skrifaði árið 2010. Í pistlinum segir Ingibjörg skilaboðin frá manninum hafa einkennst að kvenfyrirlitningu þar sem hún var ekki áreitt sem blaðamaður heldur sem kona. Ingibjörg birtir skilaboðin frá manninum í pistlinum þar sem hann kallar hana hóru, hótar henni refsingu og beinir sjónum að börnum hennar.  Ingibjörg starfaði á DV til haustsins 2014 þegar henni var sagt upp störfum þar í kjölfar eigendaskipta.

Áreitnin hélt áfram

Þegar hún hætti störfum á DV hélt hún að hún fengi ekki fleiri skilaboð frá manninum. Í janúar stofnaði hún hins vegar fjölmiðilinn Stundina. Fjölmiðillinn auglýsti eftir starfsfólki og barst Ingibjörg þá skilaboð frá manninum þar sem hann sagðist sækja um „djobbið“. Tveimur dögum síðar barst henni aftur skilaboð frá honum þar sem hann var kominn í kunnuglegan gír að sögn Ingibjargar. 

Þarf mikinn vilja til að túlka slátrun sem hótun

Ingibjörg segist í pistlinum kært manninn en það hafi gengið erfiðlega að fá að hitta lögreglumann til að leggja hana fram. Hún hafi fengið þau svör frá lögreglunni ekki væru miklar líkur á að málið fengi efnislega meðferð því það þyrfti afar einbeittan vilja til að túlka þau sem einhverskonar hótanir eða áreiti. Ingibjörg segist hafa dregið fram skilaboð frá manninum á borð við: „Óhjákvæmileg slátrun ykkar er fram undan.“ Lögreglan hafi tjáð henni að það þyrfti mikinn vilja til að túlka slík skilaboð sem líflátshótun.

Hún lét hins vegar slag standa þrátt fyrir að hafa verið tjá að kæran myndi ekki leiða til neins. Nokkrum mánuðum síðar fékk hún tilkynningu um að málið hefði verið látið niður falla. Ingibjörgu segist hafa verið slétt sama. Markmiðið  var ekki að draga manninn fyrir dóm heldur að senda honum skýr skilaboð um að svona kemur maður ekki fram.

Lætur þetta ekki hafa áhrif á starf sitt

„Mér finnst óþolandi að menn komist upp með að haga sér svona og óþolandi að sitja undir svona áreiti,“ segir Ingibjörg í samtali við Vísi sem segist ætla að halda ótrauð áfram í sínu starfi. „Maður getur ekki látið þetta hafa teljandi áhrif á sig. Auðvitað getur verið sárt að sitja undir reiðilestri frá fólki en maður getur ekki látið það stýra sér og hafa áhrif á mann.“

Spurð um viðbrögð lögreglunnar í þessu máli, hvort lögreglan sé bundin af lögunum í svona málum eða hvort lagaramminn sé ekki fullnýttur, svarar Ingibjörg:

„Þetta er alltaf bara túlkunaratriði, samkvæmt lögunum máttu ekki hóta öðrum líkamsmeiðingum eða dauða, skilst mér.  En svo virðist lögreglan túlka það mjög þröngt hvað er hótun um líkamsmeiðing eða dauða. Til að lögreglan taki það alvarlega þá þarf einhver að segja við þig: Ég ætla að koma og gera þetta við þig á þessum stað og stund.“

„Augljóslega með þráhyggju“

Ingibjörg segist ekki ætla að láta þessa hegðun mannsins hafa áhrif á sig og mun halda ótrauð áfram í sínu starfi: „Þessi maður er augljóslega með þráhyggju og tæpur samkvæmt því og mér þætti eðlilegt að þegar svona mál eru kærð færi eitthvað að ferli af stað þar sem hann fengi viðeigandi hjálp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×