Innlent

Tíu ára reynslu hafnað vegna aldurs

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir fyrirtækið setja aldurstakmark til að jafna aldurshlutfall starfsmanna.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir fyrirtækið setja aldurstakmark til að jafna aldurshlutfall starfsmanna. vísir/anton brink
Fertugri konu sem hefur starfað sem flugliði í meira en áratug hjá Icelandair var synjað um vinnu vegna aldurs. Icelandair ræður ekki flugliða fædda fyrir árið 1980.

Konan segist hafa starfað hjá félaginu áður og ákveðið að sækja um þrátt fyrir að í auglýsingu hafi verið óskað eftir starfsfólki yngra en 35 ára. Hún segist hafa talið reynslu sína góða og kom á óvart að vera synjað um vinnu. Konan segir að sér finnist viðhorf Icelandair skrítið og talar um „hreina og klára mismunun“.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir grunnástæðuna litla veltu starfsmanna. „Við erum að reyna að jafna aldursdreifinguna í hópnum. Það hætta fáir sem byrja og þetta er orðinn ansi stór hópur. Við viljum hafa aldursdreifinguna jafnari en hún er og þetta er leið sem við höfum farið með góðum árangri.“



Í stétt flugfreyja hefur áður verið tekist á um aldur. Aldurstakmarkanir voru við lýði í faginu allt til ársins 1973. Þá voru felldar niður aldurstakmarkanir í samningum við Loftleiðir og þá gat fyrsta kynslóð flugfreyja og flugþjóna gert starfið að ævistarfi.Mynd/Stöð2
Guðjón hafnar því að með þessu mismuni Icelandair starfsfólki eftir aldri og brjóti jafnræðisreglu, en hún kveður á um að óheimilt sé að mismuna fólki á grundvelli tiltekinna eiginleika, svo sem aldurs. „Nei, ég tel ekki svo vera, þetta er bara aðferð sem við notum til að jafna aldurinn.“

Í svari Icelandair til konunnar er bent á að umsókn hennar uppfylli ekki þann aldursramma sem getið hafi verið um í auglýsingu. „Þú ert þar af leiðandi ekki í hópi þeirra sem gefst kostur á ráðningu í ofangreint starf,“ segir þar, um leið og henni er þakkaður áhuginn og óskað allra heilla um ókomna tíð. Undir ritar starfsmannasvið Icelandair.

Engin svör hafa borist frá Flugfreyju-félagi Íslands þrátt fyrir fyrirspurn. Formaður félagsins, Sigríður Ása Harðardóttir, er í fríi erlendis og stjórn félagsins gefur ekki kost á svörum í fjarveru hennar.

FFÍ er eitt af sjö stéttarfélögum sem eiga beina aðild að Alþýðusambandiinu. Magnús Nordal, lögfræðingur ASÍ, segir sambandið hafa barist fyrir lögleiðingu tilskipana ESB um bann við mismunun í fimmtán ár. 

„Ísland hefur ekki innleitt tilskipanir ESB um bann við mismunun númer 43 og 78/2000. Allar ríkisstjórnir eftir það hafa gefið fyrirheit þar að lútandi en ekki lokið verkinu. Það er þó svo langt komið að nokkuð er um liðið síðan lagafrumvörp lágu fyrir. Þau hafa hins vegar ekki verið lögð fram. Vonandi gerir nýr ráðherra það en ekkert á að vera henni til fyrirstöðu hvað það snertir.“ Hvað sem nýrri lagasetningu líður segir Magnús álit ASÍ að bein og óbein mismunun á grundvelli aldurs geti talist brjóta ákvæði 65. greinar stjórnarskrár. 

„Icelandair verður að svara því hvers vegna þeir setja tiltekin aldursmörk við ráðningu flugfreyja og flugþjóna. Þeim kann að vera það heimilt ef færð eru fyrir því málefnaleg rök sem helgist af lögmætu markmiði en það er dómstóla að lokum að meta hvort svo sé.“

Magnús segir að samkvæmt svari Icelandair til konunnar sé einungis vísað til auglýsts aldursramma. „Að jafnaði þarfnast bein aldurstenging talsverðrar réttlætingar.“

Uppfært 09:30:

Í prentútgáfu fréttarinnar er Sigríður Jónsdóttir sögð formaður Flugfreyjufélagsins. Svo er ekki heldur er það Sigríður Ása Harðardóttir og hefur það verið leiðrétt hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×