Lífið

„Öllum sama um hvað ég heiti eða hvað ég hef að segja, fólk vill bara snerta skeggið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Einar Thor Ísfjörð er 26 ára Vestmannaeyingur.
Einar Thor Ísfjörð er 26 ára Vestmannaeyingur.
„Ég byrjaði að safna skegginu á Þjóðhátíð 2014, eða ég sem sagt rakaði mig síðast þá, þar til í gær,“ segir Einar Thor Ísfjörð 26 ára Vestmannaeyingur, sem er nýfluttur út til Herning í Danmörku til að læra alþjóðaviðskipti. Hann lét loksins verða af því að raka af sér skeggið og tók ferlið allt upp á myndband.

„Það er engin spes ástæða fyrir því að ég byrjaði að safna heldur bara ákvað ég að prufa þetta. Reyndar er mikill skegg-fetish í gangi í samfélaginu í dag svo ég var með puttann á púlsinum þar. Svo langaði kærustunni einnig að ég myndi prófa þetta, eftir á að hyggja er það ekkert sérstakt hrós.“

Einar segir að skeggið hafi orðið hans helsta einkenni undanfarið ár.

„En það er líka ákveðin bölvun ef svo má segja. Það er til dæmis öllum sama um hvað ég heiti eða hvað ég hef að segja, fólk vill bara snerta skeggið.“

Hann segist hafa ákveðið að raka skeggið af eftir nokkurra vikna umhugsunarfrest.

„Ég er nýfluttur í bæ sem virðist ekki hafa neinn góðan rakara og svo mig langaði að breyta til. Síðan veit ég að mamma og amma eru guðslifandi fegnar að ég rakaði mig sem og í raun allar konur yfir 35 ára. Karlmenn sem ég þekki hafa hinsvegar boðið mér uppá vinaslit, hótanir og uppnefningar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×