Körfubolti

Serbar frábærir í sigri á Spánverjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nemanja Bjelica var magnaður í kvöld.
Nemanja Bjelica var magnaður í kvöld. Vísir/Getty
Serbía vann tíu stiga sigur á Spánverjum, 80-70, í öðrum leik dagains í riðli Íslands á Evrópumótinu í körfubolta í Berlín.

Serbar voru frábærir í þessum leik eða eftir að þeir náðu smá skrekk úr sér í byrjun. Liðið spilaði af miklum eldmóð og á pöllunum létu stuðningsmennirnir vel í sér heyra.

Spánverjar eru án nokkurra af sinna stærstu stjarna á Eurobasket í ár og þeir réðu ekki við grimmar og kraftmikla Serba í dag.

Enginn lék betur í dag en Nemanja Bjelica en þessi hávaxni bakvörður hefur samið við Minnesota Timberwolves og er því á leiðinni í NBA-deildina á næstu leiktíð. Nemanja Bjelica var með 25 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum í kvöld.

Spánverjar byrjuðu leikinn samt vel og voru komnir í 21-9 í fyrsta leikhluta eftir að hafa skorað 12 stig í röð.

Serbarnir unnu sig hægt og rólega inn í leikinn og voru búnir að minnka muninn niður í tvö stig í hálfleik en þá var staðan 36-34 fyrir Spán.

Serbar tóku síðan öll völd í þriðja leikhlutanum sem þeir unnu 28-16 og voru því tíu stigum yfir fyrir lokaleikhlutann.

Spænska liðið kom sér aftur inn í leikinn og náði aðminnka muninn í þrjú stig (66-63) en þá fóru Serbarnir aftur í gang og unnu síðustu fjórar mínútur leiksins 14-7.

Pau Gasol var stigahæstur í spænska liðinu með sextán stig þrátt fyrir rólega byrjun en ellefu stiga hans komu í lokaleikhlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×