Körfubolti

Haukur: Vorum hrikalega flottir í 20 til 30 mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson skorar hér 2 af 14 stigum sínum í kvöld.
Haukur Helgi Pálsson skorar hér 2 af 14 stigum sínum í kvöld. Vísir/Valli
Haukur Helgi Pálsson var næststigahæstur hjá íslenska körfuboltalandsliðinu í kvöld þegar liðið tapaði með 26 stigum á móti stjörnuprýddu spænsku landsliðinu í fjórða leik sínum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Berlín.

„Þetta er erfitt," sagði Haukur Helgi Pálsson þegar hann mætti allur vafinn í viðtöl við blaðamenn eftir leikinn.

„Þetta er svona þegar maður er búinn að vera í baráttunni allan leikinn á móti stærri mönnum sem virka vera svona 20 kílóum þyngri. Þetta er bara búin að vera keyrsla sem fylgir þessu," sagði Haukur sem skoraði 14 stig og hitti úr 3 af 4 þriggja stiga skotum sínum.

Spánverjarnir fóru mikið inn á þá Pau Gasol og Nikola Mirotic sem voru íslensku strákunum erfiðir enda miklu stærri.

„Stóru mennirnir þeirra eru báðir með yfir 20 stig og það var mjög erfitt fyrir Hlyn að ráða við Pau Gasol eða þá fyrir bakverðina okkar að dekka þá ef við urðum að skipta. Það er bara of erfitt að verjast honum því hann er of stór og of hæfileikaríkur," sagði Haukur um Pau Gasol sem var með 21 stig á 23 mínútum í kvöld.

„Það er heldur ekki hægt að falla að honum því hann er svo hrikalega góður sendingamaður. Þeir gerðu akkurat það sem þeir þurftu að gera," sagði Haukur.

Íslenska liðið náði svakalega flottum 16-4 spretti í öðrum leikhluta sem skilaði liðinu fjögurra stiga forystu.

„Því miður eru þetta ekki tuttugu mínútna leikir heldur 40 mínútur. Mér fannst við vera hrikalega flottir í 20 til 30 mínútur. Síðan halda þeir áfram, við verðum þreyttir og þeir eru áfram í því að gera það sem þeir eru vanir," sagði Haukur.

„Það er einn leikur eftir og hann verður bara barátta. Við verðum að vinna einn leik á þessu móti. Þetta verður gaman á morgun," sagði Haukur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×