Körfubolti

Hlynur: Ekki vanur því að spila svona seint á kvöldin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Pau Gasol í leiknum í kvöld.
Hlynur Bæringsson og Pau Gasol í leiknum í kvöld. Vísir/Valli
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, gaf allt sitt að venju í kvöld þegar Ísland tapaði 99-73 á móti Spánverjum á Evrópumótinu í körfubolta í Berlín.

„Það var rosalega gaman að fá að glíma við þessa karla. Langan hluta í leiknum þá vorum við bara yfir eða í jöfnum leik eða þangað til síðustu mínúturnar í þriðja leikhluta þegar þeir fóru framúr okkur," sagði Hlynur.

Hlynur var með 8 stig og 8 fráköst í baráttunni við NBA-stjörnurnar í spænska liðinu.

„Þeir voru bara með aðeins meiri orku en við og auðvitað rosa hæfileikaríkir líka. Þetta var rosa gaman og fjör en því miður varð munurinn of mikill í restina," sagði Hlynur.

„Það var margt mjög jákvætt í þessu og mér fannst þetta vera góður leikur hjá okkur og þá sérstaklega framan af," sagði Hlynur.

„Þetta var líka rosalega skrýtið því ég er ekki vanur því að spila svona seint á kvöldin. Það var svolítið sérstakt og líkamsklukkan var í fönki til að byrja með," sagði Hlynur en leikurinn hófst klukkan níu að staðartíma í Berlín.

Íslenska liðið spilar lokaleik sinn á mótinu á móti Tyrkjum á morgun en sá leikur fer líka fram klukkan níu um kvöld.

„Nú er bara einn leikur og við ætlum bara að klára þessa hátið með stæl. Klára þetta með fólkinu okkar og það verður bara gaman líka á móti Tyrkjunum á morgun," sagði Hlynur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×