Innlent

Ráku upp stór augu er þeir sáu fólk í lauginni þrátt fyrir lokun

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stefnt er að því að opna Vesturbæjarlaugina á fimmtudag.
Stefnt er að því að opna Vesturbæjarlaugina á fimmtudag. vísir/ernir
Vesturbæjarlaugin hefur verið lokuð undanfarna daga þar sem unnið er að endurbótum á henni. Því ráku nokkrir íbúar upp stór augu er þeir komu að lokaðri laug en sáu samt sem áður fólk í potti laugarinnar í dag. Rætt var um málið í Facebook-hópnum Vesturbærinn. Það á sér allt eðlilegar skýringar að sögn Hafliða Halldórssonar forstöðumanni laugarinnar.

„Þarna hefur verið á ferðinni starfsfólk sundlaugarinnar að kíkja í pottinn að lokinni vakt. Þau hafa unnið að því að þrífa allt hátt og lágt síðustu daga,“ segir Hafliði í samtali við Vísi.

Lauginni var lokað á mánudag í síðustu viku og var stefnt að því að opna hana í fyrsta lagi í dag en í síðasta lagi fyrir lok vikunnar. Að sögn Hafliða er laugin sú eina á höfuðborgarsvæðinu sem ekki er flísalögð og þarf því að mála hana alla. Það hefur dregist sökum rigningarinnar sem hefur verið síðustu daga.

„Mér sýnist á öllu að við getum í fyrsta lagi opnað aftur á fimmtudaginn. Við stefnum að því núna. Ég hef verið í sambandi við málarana og það er hægt að byrja að láta renna í laugina aftur klukkan sex á morgun. Það þurfa 750 tonn af vatni að renna í hana og það getur getur tekið sextán til tuttugu klukkustundir,“ segir Hafliði að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×