Erlent

Þúsundir íbúa hafa misst heimili sín

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Gríðarmikil hola myndaðist þar sem sprengingarnar urðu í vörugeymslu á hafnarsvæðinu í Tianjin á miðvikudag.
Gríðarmikil hola myndaðist þar sem sprengingarnar urðu í vörugeymslu á hafnarsvæðinu í Tianjin á miðvikudag. Vísir/epa
Tala látinna eftir sprengingarnar í Tianjin á miðvikudag var í gær komin upp í 114. Sjötíu manns að auki var enn saknað og nærri 60 manns liggja alvarlega slasaðir á sjúkrahúsum.

Um það bil 17 þúsund íbúðir eyðilögðust í sprengingunum, með þeim afleiðingum að sex þúsund manns hið minnsta hafa misst heimili sitt.

Hópar fólks hafa komið saman í miðborginni til að krefjast skaðabóta. Fólkið vísar til þess að eldfim og stórhættuleg efni hafi verið geymd við höfnina með ólöglegum hætti, bæði í allt of miklu magni og allt of nálægt íbúðarhúsum.

Stjórnvöld hafa staðfest að 700 tonn af natríumblásýrusalti hafi verið geymd á hafnarsvæðinu, þar sem sprengingarnar urðu. Þetta er miklu meira magn en heimilt var að geyma þarna.

Efnið er baneitrað og gefur frá sér blásýru ef það brennur eða leysist upp í vatni.

Náðu í eigur sínar Íbúar á hættusvæði í Tianjin hafa fengið að fara í fylgd með hermönnum heim til sín til að ná í eigur sínar. Fréttablaðið/EPA
Efnið hefur greinst í hættulegu magni í afrennslisvatni. Mælingarnar vekja ótta, en borgaryfirvöld sögðust í gær ætla að safna saman og eyða strax fyrir kvöldið öllu natríumblásýrusalti sem fyndist á svæðinu í allt að þriggja kílómetra fjarlægð frá sprengistaðnum.

Borgaryfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að hafa heimilað geymslu á þetta miklu magni af baneitruðu efni í næsta nágrenni við íbúðahverfi.

Aldrei þessu vant hafa stjórnvöld leyft gagnrýnisröddum að heyrast opinberlega. Að minnsta kosti upp að vissu marki.

Tianjin er fimmtán milljóna manna stórborg og hafnarsvæðið þar hefur mikið vægi í efnahagslífi landsins. Þangað koma til dæmis um 40 prósent af öllum þeim bifreiðum, sem fluttar eru inn til Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×