Fótbolti

Simon skaut þær áströlsku inn í átta liða úrslit | Marta á leið heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyah Simon og Lisa De Vanna fagna hér sigurmarkinu.
Kyah Simon og Lisa De Vanna fagna hér sigurmarkinu. Vísir/Getty
Ástralía er komið áfram í átta liða úrslitin á HM kvenna í fótbolta í Kanada eftir 1-0 sigur á Brasilíu í leik liðanna í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Moncton í dag.  

Það var Kyah Simon sem skoraði eina mark leiksins tíu mínútum fyrir leikslok og Marta og félagar í brasilíska landsliðinu eru því á leiðinni heim.

Þetta er þriðja heimsmeistaramótið í röð þar sem þær áströlsku komast í átta liða úrslitin en þær hafa aldrei komist lengra en það.

Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir brasilíska liðið sem vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og fékk þá ekki á sig mark. Þetta var fjórða heimsmeistaramót Mörtu sem ætlar ekki að takast að verða heimsmeistari á sínum frábæra ferli en brasilíska liðið datt út í átta liða úrslitum fyrir fjórum árum.

Sigurmarkið má að einhverju leiti skrifa á Lucianu, markvörð brasilíska landsliðsins, sem átti að gera betur en að verja hættulítið skot Lisu De Vanna beint fyrir fætur Kyah Simon.

Kyah Simon hefur heldur betur verið betri en enginn fyrir ástralska liðið á HM því hún skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Nígeríu sem var eini sigur liðsins í riðlakeppninni.

Ástralía mætir sigurvegaranum úr leik Hollands og Japans í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×