Innlent

Bjuggu til Tinder fyrir orð svo íslenskan glatist ekki

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Borgar er annar höfunda leiksins eða gagnaframleiðslunnar. Hann segist vera mikill stafsetningarnörd.
Borgar er annar höfunda leiksins eða gagnaframleiðslunnar. Hann segist vera mikill stafsetningarnörd. Vísir/Borgar
Íslenska er flókið tungumál og snúið að ætla að skrifa niður öll orð sem til eru í íslenskri tungu. Þeir Borgar Þorsteinsson og Páll Hilmarsson, forritarar og málfræðinördar, hafa þó hannað orðaleik eða nánar tiltekið gagnaframleiðslu sem er ætlað að bæta við gagnasafn beygingarlýsingar Stofnunar Árna Magnússonar en þá langar báða til þess að semja og forrita orðaleiki fyrir íslenska tungu.

Leikinn má nálgast hér.

„Ég skrifaði tölvuleik sem byggði á orðasafninu,“ segir Borgar og á þá við leik sem hann gerði áður en þeir félagar settu saman Orðaleitina sem stundum hefur verið nefnd Tinder fyrir orð. Hann leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að uppfæra íslensk orðasöfn og halda þannig íslenskunni á lofti.

Netskraflarar þrýstu á uppfærða orðabók

„Orðasafnið er ekki alveg fullkomið enda er íslenskan snúin þegar kemur að því að ætla að skrifa allt niður enda býr fólk til orð eftir því sem þarf. Það er annars vegar það og hins vegar að beygingarlýsingin er þannig að það vantar oft í hana óbeygjanleg orð.“ Þetta eru vandamál sem hafa komið upp hjá notendum eins vinsælasta íslenska orðaleiksins um þessar mundir, Netskraflsins.

Hér má sjá skjáskot af leiknum. Hann er auðveldur í notkun eins og sjá má.
Margir áhugamenn um íslensku hafa spilað leikinn en orðið hissa þegar fullkomlega viðurkennd íslensk orð virðast ekki viðurkennd af leiknum. Sama vandamál kemur upp þegar vélmennið sem spilað er við spilar fram orði sem enginn notar lengur í daglegu tali. Þetta var í raun kveikjan að því að Borgar og Páll ákváðu að ráðast í verkefnið.

„Það eru margir áhugasamir netskraflarar sem leggja hart að okkur þegar kemur að Netskraflinu. Þrýsta á okkur og spyrja af hverju við séum ekki að gera meira fyrir Netskraflið,“ segir Borgar og hlær.

„Ég held að allir sem hafa spilað þetta að einhverju marki hafi lent í því að vera komnir með góða niðurlögn sem á endanum er ekki samþykkt en maður veit alveg að er rétt íslenska.“

Vantar fjármagn í verkefni sem uppfæra íslenska orðabók

Borgar telur nauðsynlegt að fjármagn sé sett í fleiri verkefni til að vernda íslenskuna og uppfæra íslensku orðabókina þannig að hún sé í takt við nútímann.

Notendur eru ósammála um orð eins og laser en það hefur til dæmis verið notað þegar talað er um laseraugnaðgerðir.Vísir/Pjetur
„Ég held að Íslendingar séu áhugasamir um íslensku og að fólki þyki vænt um tungumálið. En það sem vantar rosalega mikið eru tól og hreinlega fjárveiting í að framleiða nýja orðabók.“ Honum finnst sérstaklega vanta opna íslenska orðabók þar sem fólk getur bætt inn orðum sem það telur vanta.

„Eins og hann Þórbergur Þórðarson. Hann tók peningana sem hann hafði unnið sér inn við að skrifa fullt af vinsælum bókum og skrifaði orðabókarsjóð í þeim tilgangi að efla íslensku og gera orðabók sem var aðgengileg almenningi. Þessi verkefni eru aftur orðin mikilvæg í dag.“

Borgar og Páll eru báðir forritarar sem starfa hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Qlik en leikurinn Orðaleit er ástríðuverkefni þeirra félaga sem þeir vinna utan vinnutíma.

Tugir gígabæta af íslenskum texta

„Það sem við Palli gerðum var að lesa internetið, allt íslenska internetið sem við komumst í. Við settum upp róbóta til að lesa bókstaflega allan góðan íslenskan texta sem við komumst í. Við töldum öll orð sem við fundum en þetta var rosalegt magn af texta. Tugir gígabæta,“ útskýrir Borgar. Lesturinn tók mikinn tíma eins og gefur að skilja.

Þeir tóku orðin sem höfðu einhverja ákveðna tíðni en voru ekki til í íslensku máli samkvæmt hinni íslensku beygingarlýsingu og forrituðu leik þar sem fólk getur tekið ákvörðun um hvort orðið teljist íslenska eða ekki.

„Við keyrðum á það að búa til eitthvað almennilegt og skoða hvernig orð fólk er raunverulega að nota.“

Þannig létu félagarnir forritið lesa daglegt internetmál Íslendinga, til að mynda inni á Barnalandi, auk texta á fréttamiðlum, hæstaréttardóma og svo mætti lengi telja.

Ákvarða um 218 þúsund orð sem tölva getur ekki tekið

Viðmótið er einfalt. Orð kemur upp á skjáinn og notandinn getur valið annaðhvort já eða nei við spurningunni: „Er þetta íslenska?“ Borgar segir að leikinn mætti kalla Tinder fyrir orð og hlær.  „Þetta eru ákvarðanir sem fólk tekur á einni sekúndu en tölva á erfitt með að svara.“

Um 218 þúsund orð fundust á netinu sem Beygingarlýsing íslensks nútímamáls samþykkir ekki. „Við getum ekki sett þetta fyrir framan einn einstakling. Þetta er þvílíkt magn af orðum. Sumt sem manni finnst algjörlega eðlilegt mál, eins og botnbarátta, saltfiskflök og ljóðahátíð.“

Einn notandi Netskraflsins setti þessa mynd inn á Facebook hóp fyrir notendur spilsins og var hissa á því að tölvan skyldi komast upp með að nota orðið háðiði. Þetta er hinsvegar spurnarmynd sagnar í nútíð sem er gilt þrátt fyrir að vera lítið notað í daglegu tali.
Hins vegar er einnig um að ræða margar innsláttar- og stafsetningarvillur sem hafa þó af einhverjum ástæðum komið upp nokkuð oft í daglegu tali Íslendinga. „Maður er hræddastur um að fólk samþykki stafsetningarvillur sem er erfitt að sjá.“

Á endanum fer hópur af fólki yfir orðin sem samþykkt voru áður en þeim er bætt við beygingarlýsinguna svo úr verði góð skraflorðabók eins og Borgar kýs að kalla verkefnið.

Notendur ósammála um orð eins og laser

Ekki eru allir sammála um hvort orðin séu íslensk eða ekki. Til að mynda hafa notendur leiksins verið ósammála um hvort orðið laser sé íslenska eða ekki. Það var tekið úr umferð eftir að það fékk átta ógild atkvæði og fimm gild.

Ekkert svar er rétt eða rangt leiknum. „Það eru Íslendingar sem ákveða það hvort orð eru íslensk eða ekki. Það getur verið um að ræða hluti sem eru orðnir hluti af íslensku máli en hafa ekki verið samþykktir í íslenskri orðabók. Það er mjög einstaklingsbundið hvað fólk metur sem íslensku,“ segir Borgar og að eins sé mismunandi hversu mikið fólk leggur upp úr að tala rétt mál.

„Ég er mikill stafsetningarperri og græt mig í svefn ef ég geri stafsetningarvillu.“ Hann telur þó að málfræðingar eigi fyrst og fremst að skoða hvernig fólk notar málið fremur en að reyna að stýra því.

Netskraflið virtist ekki vilja kannast við orðið seymur en hér á að sjálfsögðu að vera einfalt i en ekki ypsilon.
Borgar ætlar í framtíðinni að búa til orðaleiki en hann bendir á að Orðaleit þeirra félaga sé í raun gagnaframleiðsla frekar en eiginlegur leikur.

„Það er mjög sorglegt ef enskan er farin að hafa svona mikil áhrif, við erum ekki einangrað land lengur og hún er þegar farin að hafa áhrif upp að einhverju marki. Ef við ætlum að stemma stigu við því þá er mikilvægt að halda utan um öll svona verkefni, passa að þau fari ekki útaf sporinu.

Við höfum öll mjög mikinn áhuga á að vilja græða peninga og koma okkur vel fyrir en það er leiðinlegt ef við getum ekki búið til einhvers konar kommúnistakerfi til að halda utan um málið okkar.

Það er eins og enginn vilji borga reikninginn, Íslendingum þykir alveg vænt um málið og vill gera eitthvað í því að halda því á lífi en þetta virðist ekki vera forgangsmál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×