Innlent

Lagt hald á 43 ólöglegar lyfjasendingar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tollhúsið við Tryggvagötu.
Tollhúsið við Tryggvagötu. Vísir/Hörður
Rúmlega fjörutíu mál komu upp hér á landi fyrr í mánuðinum í alþjóðlegri aðgerð gegn fölsuðum og ólöglegum lyfjum sem seld eru á netinu. Embætti Tollstjóra og Lyfjastofnun tóku sameiginlega þátt í aðgerðinni og nutu atbeina ríkislögreglustjóra og tengslaskrifstofu embættissins hjá Europol við framkvæmd verkefnisins hér. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tollstjóra.

Í aðgerðinni, „Pangea VIII“ sem var á vegum WCO (World Customs Organisation), Europol og Interpol, var lagt hald á samtals 43 sendingar. Aðallega var um að ræða nikótínvökva og var heildamagnið á fimmta lítra. Í tengslum við aðgerðina var jafnframt lagt hald á 28 sendingar með fæðubótarefnum sem innihéldu lyfjavirk efni eða jurtir með lyfjavirkni. Þær höfðu m.a. að geyma örvandi efni, hormóna, grenningarefni og „detoxunarefni“.

Samtals tóku 115 lönd þátt í aðgerðinni, sem er sú stærsta sinnar tegundar til þessa. Markmiðið var að kortleggja skipulagða glæpastarfsemi að baki fölsuðum og ólöglegum lyfum á netinu og voru alls 156 handteknir. Haldlögð voru ólögleg og hættuleg lyf að andvirði 81 milljón Bandaríkjadala eða sem svarar til tæplega ellefu milljarða íslenskra króna. Þá var 2.414 vefsíðum sem buðu slíkan varning til sölu lokað.

Tollstjóri segir frekari upplýsingar ekki verða gerðar opinberar þar sem málin séu í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×