Innlent

„Vonandi er einhver þarna úti byrjaður að leita“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stefán Konráðsson.
Stefán Konráðsson. vísir/stefán
„Þetta er ofboðslega flottur vinningur, sá stærsti í íslenskri happdrættissögu,“ segir Stefán Snær Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár. Íslendingur nokkur varð 162 milljónum ríkari í gærkvöldi þegar dregið var í Víkingalottóinu.

„Þetta er áskrifandi en við vitum ekki nafnið fyrr en seinna í dag,“ segir Stefán en ástæðan snýr að kerfinu sem ekki er hægt að veiða upplýsingarnar upp úr fyrr en seinni partinn. Vinningshafinn þarf þó ekki að hafa neinar áhyggjur hafi hann ekki gert sér grein fyrir lukku sinni.

„Við munum hafa samband við viðkomandi,“ segir Stefán. „Vonandi er einhver þarna úti byrjaður að leita.“

Fær ráðgjöf

Stefán segir Íslenska getspá muni taka vel á móti vinningshafanum. Strax í upphafi sé spurt hvort viðkomandi vilji að nafn hans komi fram og í 99,9% tilfella kjósi vinningshafar nafnleynd.

„Það er mjög eðlilegt. Þetta er ákveðið áreiti og fólk þarf að jafna sig á því að hafa unnið.“

Hann segir alla sem vinna fimm milljónir króna eða meira boðið í ráðgjöf og langflestir þiggi hana. Ráðgjöfin sé í samstarfi við danskt endurskoðendafyrirtæki með starfsemi á Íslandi.

„Fólk nýtir þetta nánast í öllum tilfellum enda öllum að kostnaðarlausa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×